Áður höfðu erlendir miðlar fullyrt að Ísraelsher hefði tekist að endurheimta lík nokkurra gísla sem Hamas liðar hefðu haft á brott með sér á Gasaströndina, í sérstakri hernaðaraðgerð. Breska ríkisútvarpið hefur nú eftir hernum að þetta sé ekki rétt.
Þá segist talsmaður hersins ekki hafa upplýsingar um það hvaðan þessar frásagnir hafi komið. Þær séu ekki frá hernum, sem hafi engar upplýsingar um slíka aðgerð. Í hið minnsta 1300 manns létust í árásum Hamas liða í suðurhluta Ísrael síðastliðinn laugardag, hundruð þeirra voru erlendir ríkisborgarar.
Hafa áhyggjur af stigmögnun átakanna
Þá hefur breska ríkisútvarpið eftir Ayman Safadi, utanríkisráðherra Jórdaníu, nágrannaríkis Ísrael, að yfirvöld þar í landi hafi miklar áhyggjur af velferð Palestínumanna á Gasaströndinni.
Hann segir að yfirvöld þar í landi óttist að haldi Ísraelsmenn áfram að reka Palestínumenn á brott muni það leiða til stigmögnun átaka í Miðausturlöndum. Þá segir hann að ísraelsk stjórnvöld hafi komið í veg fyrir að birgðir hjálparsamtaka komist til Gasa.
Ísraelsmenn hafa lagt 1300 byggingar í rúst á Gasaströndinni með loftárásum sínum. Þeir hafa lýst því yfir að innrás á Gasaströndina sé yfirvofandi og skipað milljón íbúum á norðurhluta Gasastrandarinnar að yfirgefa heimili sín. Um 1.900 Palestínumenn hafa látist í aðgerðum Ísraelshers.