Í júní bryddaði Elon Musk, eigandi Twitter, upp á hugmynd að slagsmálum milli hans og Zuckerberg, eiganda samfélagsmiðlarisans Meta. Gerði hann það á sama tíma og Meta vann að þróun samfélagsmiðils í beinni samkeppni við Twitter sem kallast Threads.
Í framhaldinu sagði Dana White forseti UFC að þeir væru báðir tilbúnir til að mætast í hringnum og að bardaginn yrði sá stærsti í sögunni.
Í færslu á Threads segir Zuckerberg að nú sé orðið ljóst að Musk sé ekki alvara með að mæta honum í hringnum.
„Ég bauð dagsetningu. Dana White bauðst til þess að gera þetta að almennilegum bardaga til styrktar góðgerðarmála. Elon vildi ekki staðfesta dagsetningu, segist svo þurfa að fara í aðgerð og biður nú um að fá að mæta mér í garðinum mínum í staðinn,“ skrifar Zuckerberg.
„Ef Elon verður nokkurn tímann alvara með dagsetningu og viðburð, þá veit hann hvar hann nær í mig. Að öðrum kosti er tími til kominn að halda á önnur mið. Ég mun einblína á að berjast við fólk sem tekur íþróttinni alvara.“