Hátíðin er sú stærsta í heimi meðal viðburða þar sem þungarokk er í forgrunni og hefur hún verið haldin árlega frá árinu 1990.
Að þessu sinni spila fjórar íslenskar hljómsveitir á hátíðinni og eru það Skálmöld, Sólstafir, The Vintage Caravan og Krownest. Íslendingar hafa aldrei átt jafnmarga fulltrúa á Wacken Open Air og af því tilefni buðu skipuleggjendur forseta að sækja hátíðina sem heiðursgestur.
Mikið úrhelli er í Wacken sem hefur leitt til töluverðra frestana á dagskrá. Þá þurftu aðstandendur að takmarka fjölda gesta nokkuð vegna úrhellis með tilheyrandi drullusvaði.
Í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands segir að Guðna verði fylgt um hátíðarsvæðið þar sem hann fylgist með tónleikum íslensku hljómsveitanna auk annarra tónlistarmanna og ræðir við þá baksviðs. Þá tekur forseti þátt í pallborðsumræðum ásamt skipuleggjendum Wacken þar sem rætt verður um þungarokkssenuna á Íslandi og tengsl hennar við norrænan menningararf.
Forseti kemur aftur til Íslands á sunnudag.