Sama dag og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi virkjunarleyfi vegna Hvammsvirkjunar úr gildi þann 15. júní sagði umhverfis- og orkumálaráðherra að strax yrði farið í það að kanna hvað fór úrskeiðis og það mætti ekki taka langan tíma.
„Við höfum legið yfir þessu, já, með Orkustofnun og fundað þétt síðan. Og við hyggjumst áfram vinna með Orkustofnun að úrlausn þessa máls,“ segir Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, í samtali við Stöð 2.

„Það þarf sem sagt að taka tvær ákvarðanir; eina á grundvelli raforkumála og síðan eina á grundvelli stjórnar vatnamála.“
En hve langan tíma tekur þetta?
„Við erum að hugsa þetta í mánuðum núna. En það er mjög erfitt að gefa alveg nákvæma tímalínu af því við erum með fyrsta mál þessarar tegundar eftir að þessi úrskurður fellur og líka fyrsta mál þessarar tegundar varðandi stjórn vatnamála,“ svarar Sigrún.
Forstjóri Landsvirkjunar sagði í síðustu viku að í raun hefði bara skort á samtal milli þessara tveggja stofnana. Er forstjóri Umhverfisstofnunar sammála því mati?
„Ja, það eru skilaboð úrskurðarnefndarinnar, einmitt. Að þarna hefði málsmeðferðin þurft að tvinna inn sem sagt vinnu Umhverfisstofnunar og ábendingar sem lítur að þessari löggjöf, já.“

Sigrún segir lög um stjórn vatnamála mjög þýðingarmikil enda sé vatn mikið hreyfiafl.
„Vatn hefur mikil áhrif á lífríkið og jarðefnin og líka landslagið þar sem vatnið rennur. Og þetta er auðvitað heilmikið inngrip að setja upp stíflur og annað slíkt. Þessvegna þurfum við að taka það að mjög yfirlögðu ráði.. - við höfum ofsalega góð gögn – þegar við tökum þessar ákvarðanir.“
En kannski er stærsta spurningin sú: Verður yfirhöfuð hægt að fá nýtt virkjunarleyfi eða er leiðin lokuð?
„Ég ætla ekki að taka ákvörðun í beinni. Það geri ég ekki. En við skulum bara sjá hverju fram vindur. Við lofum því að vanda okkur,“ svarar forstjóri Umhverfisstofnunar.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: