Skoðun

Orð um bækur

Margrét Tryggvadóttir skrifar

Síðustu ár hefur Jórunn Sigurðardóttir staðið vaktina á vettvangi bókmenntanna með þáttinn sinn Orð um bækur á Rás 1 en nú hefur síðasti þátturinn verið sendur út. Nú þegar Jórunn er að hætta eftir áratuga starf hjá Ríkisútvarpinu, meðal annars í þágu bókmenntalífsins í landinu, langar okkur sem nú skipum stjórn Rithöfundasambands Íslands að þakka fyrir alla þættina, áhugann, eljuna, alúðina og kærleikann í garð bókamenntalífsins í landinu. Í þættinum fengu landsmenn að heyra hvað rætt var á helstu bókmenntaviðburðum, að kynnast nýjum höfundum og verkum þeirra og heyra af því helsta í heimsbókmenntum líðandi stundar.

Um leið og við þökkum Jórunni viljum við skora á stjórnendur RÚV að tryggja sess bókmenntaumfjöllunar í dagskrárgerðinni áfram. Dregið hefur úr umfjöllun um bókmenntir og tungumálið í fjölmiðlum almennt og því skiptir máli að RÚV sinni vel því hlutverki sínu að leggja rækt við íslenska tungu, sögu og menningararfleifð og endurspegla menningarlega fjölbreytni, ekki síst í bókmenntum. Bókmenningu þarf að næra og rækta með umfjöllun, gagnrýni, viðtölum og kynningu. Við þurfum fleiri orð um bækur.

Fyrir hönd stjórnar Rithöfundasambands Íslands,

Margrét Tryggvadóttir

Höfundur er formaður Rithöfundasambands Íslands.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×