Ráðgjöfina í heild sinni má nálgast á vef Hafrannsóknastofnunar undir Ráðgjöf. Þá er hægt að horfa á fundinn í heild sinni hér að neðan:
Meðal ráðlegginga stofnunarinnar er eitt prósent hækkun aflamarks þorsks fyrir næsta fiskveiðiár. Sú ráðgjöf byggir á aflareglu stjórnvalda og hækkar ráðlagður heildarafli úr 208.846 tonnum á yfirstandandi fiskveiðiári í 211.309 tonn. Hækkunina megi rekja til hækkunar á mati á viðmiðunarstofni í ár.
Þá segir að gert sé ráð fyrir því að viðmiðunarstofn þorsks fari hægt vaxandi næstu tvö til þrjú ár þegar árgangarnir frá 2019 og 2020 koma að fullu inn í viðmiðunarstofninn þar sem þeir eru nú metnir yfir meðallagi.
Meiri ýsa og gullkarfi, minni ufsi en enginn djúpkarfi
Samkvæmt aflareglu verður aflamark ýsu 76.415 tonn sem er 23 prósenta hækkun frá yfirstandandi fiskveiðiári. Áætlað er að viðmiðunarstofninn muni stækka næstu tvö árin vegna góðrar nýliðunar áranna 2019 til 2021.
Þá lækkar ráðgjöfin fyrir ufsa samkvæmt aflareglu um 7 prósent frá yfirstandandi fiskveiðiári og er 66.533 tonn.

Ráðgjöf fyrir gullkarfa er 41.286 tonn sem er 62 prósentum hærra en á yfirstandandi fiskveiðiári. Ástæða hækkunarinnar er að grunnur stofnmats var endurskoðaður á rýnifundi Alþjóðahafrannsóknaráðsins í byrjun árs.
Þrátt fyrir hækkunina benda stofnunin á að nýliðun gullkarfa hafi verið mjög slök undanfarinn áratug og af þeim sökum hafi hrygningarstofn minnkað umtalsvert á undanförnum árum. Fyrirséð sé að stofninn fari minnkandi á komandi árum og þá þurfi að draga verulega úr sókn.
Stofnunin leggur til að aflamark djúpkarfa verði 0 tonn þar sem hrygningarstofn er metinn undir varúðarmörkum. Ráðgjöfin byggi á nýuppfærðu stofnmati fyrir djúpkarfa eftir rýnifund Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Ekki sé búist að stofninn fari upp fyrir varúðarmörk í fyrirsjáanlegri framtíð.
Sumargotssíldin fari ört vaxandi
Þá segir í tilkynningu Hafró að stofnstærð íslensku sumargotssíldarinnar fari nú ört vaxandi, eftir samfellda minnkun árin 2008–2019 vegna slakrar nýliðunar og þrálátrar frumdýrasýkingar í stofninum.
Árgangar 2017–2019 eru metnir talsvert stærri en undangengnir árgangar og séu þeir meginuppistaðan í viðmiðunarstofninum. Ráðgjöf samkvæmt aflareglu stjórnvalda er 92.634 tonn sem er 40 prósent hækkun frá þeim 66.195 tonnum sem voru ráðlögð á yfirstandandi fiskveiðiári.
Ráðgjöf fyrir grálúðu lækkar um 19 prósent frá síðasta ári og er 21.541 tonn. Ráðlagt aflamark er lægra vegna endurskoðunar á grundvelli stofnmatsins eftir rýnifund Alþjóðahafrannsóknaráðsins.
Á meðfylgjandi töflu má sjá yfirlit yfir ráðgjöf stofnunarinnar: