Nú eru 211 blómaker í borgarlandinu og er heildarkostnaður við þau ríflega 62 milljónir króna frá árinu 2015, reiknað á verðlagi hvers árs.
Svar fyrir fyrirspurn Kolbrúnar var lagt fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar fyrr í vikunni. Kolbrún hafði þar spurt um umfang blómakerjanna, kostnaðinn og umhirðu.
Sömuleiðis spurði Kolbrún hvort einhver slys hafi hlotist af blómakerjunum, til að mynda hvort einhver hafi dottið um þau eða hjólað á þau.
Upplýsingar um tjón liggja ekki fyrir
Í svari skrifstofustjóra borgarlandsins hjá Reykjavíkurborg við fyrirspurn Kolbrúnar segir að byrjað hafi verið að nota blómakerin um síðustu aldamót, en að upplýsingar um tjón eða slys vegna blómakerja liggi ekki fyrir hjá umhverfis- og skipulagssviði.

„Aukning hefur verið á notkun blómakerja í borgarlandinu undanfarin ár. Þau hafa þótt hentug í ýmis verkefni enda augnayndi en einnig vegna verkefna tengdum Betri hverfi og samgöngumálum til að takmarka eða leiða umferð. Ljóst er að blómakerjum mun eitthvað fjölga áfram enda eins og áður sagði hentug í ýmis verkefni á borgarlandinu,“ segir í svari skrifstofustjórans.

Fólk hafi dottið eða hjólað á kerin
Í bókun Kolbúnar vegna svarsins segir hún að blómakerin hafi sprottið upp eins og gorkúlur, enda nú orðin 211 talsins.
„Hvort það er mikið eða lítið ræðst af því hver tilgangurinn er með notkun þeirra. Eins mikið og borgarfulltrúi Flokks fólksins finnst gaman að blómum þá eru takmörk fyrir öllu. Í einhverjum tilfellum hafa ker verið sett þar sem áður voru bílastæði.
Sannarlega er prýði af blómum en tilfelli eru einnig um að fólk hafi ýmist dottið um blómaker sem eru á gönguleiðum eða hjólað á þau. Fram kemur að ekki eru skráð slys sem tengjast blómakerjum. Það þarf að gera. Tölfræði skiptir máli til að hægt sé að vega og meta hvort ákvarðanir séu farsælar og eða árangursríkar,“ segir Kolbrún.