Innlent

Vonar að „eitt skemmt epli“ skemmi ekki fyrir hinum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Albert Guðmundsson var sýknaður í Landsrétti sem klofnaði þó í málinu.
Albert Guðmundsson var sýknaður í Landsrétti sem klofnaði þó í málinu. Vísir/Vilhelm

Albert Guðmundsson landsliðsmaður í fótbolta tjáir sig um mál sitt eftir að staðfesting barst verjanda hans um að málinu yrði ekki áfrýjað. Hann segist ekki láta kúga sig og kveðst vona einlægælega að „eitt skemmt epli“ skemmi ekki fyrir þeim sem eru raunveruleg fórnarlömb ofbeldis.

„Þetta kalla ég sannfærandi 3-0 sigur í minni vinnu,“ skrifar hann meðal annars í færslu á samfélagsmiðlum.

Færsluna birti hann á samfélagsmiðlinum Instagram í kvöld en með yfirlýsingunni birti hann alsvarta mynd, það sem virðist vera stuðningsskilaboð, mynd af bréfi og ljósmynd úr dómsal.

Vilhjálmur Vilhjálmsson verjandi Alberts segir sér hafa borist staðfesting á því að málinu verði ekki áfrýjað til Hæstaréttar.

Biðji ekki um vorkunn

Albert segir málaferlin hafa tekið á bæði andlega og líkamlega og svipt sig mörgum tækifærum í fótboltanum.

„Ég er þó ekki að biðja um vorkunn. Það sem hélt mér gangandi voru mínir nánustu. Börnin mín, barnsmóðir mín, foreldrar mínir, systur mínar, fjölskyldan og vinir. Þið eruð hetjurnar í þessu ferli. Ég get aldrei þakkað ykkur nóg,“ skrifar hann.

Skemmt epli skemmi fyrir „raunverulegum fórnarlömbum“

Albert kveðst vita að það sé fólk þarna úti sem muni ekki trúa honum en það skipti ekki öllu. Hann segist vita hver hann er og fyrir hvað hann stendur.

„Til ykkar sem enn eruð í vafa hvet ég ykkur til að lesa dóma beggja dómstiga og hafa í huga að samkvæmt gögnum málsins voru fleiri en bara ég ásakaðir þetta umrædda kvöld. Ég læt þó ekki kúga mig, sérstaklega ekki fyrir eitthvað sem aldrei gerðist. Við getum farið nánar út í það síðar ef þarf,“ segir Albert.

„Ég vona einlæglega að þótt eitt skemmt epli hafi verið þarna úti, þá skemmi það ekki fyrir þeim sem eru raunveruleg fórnarlömb,“ segir hann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×