Samkvæmt upplýsingum frá Ásgeiri Erlendssyni, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, tókst björgunarliði um borð í þyrlunni að hafa uppi á bátnum eftir um sautján mínútna flug og amaði ekkert að manninum sem var einn um borð.
Ásgeir segir að verklagið hjá Gæslunni sé þannig að þyrlan sé ræst út í tilvikum sem þessum þar sem bátar detta út af kerfum Landhelgisgæslunnar og ekki næst samband við bátinn í gegnum síma. Sömuleiðis ef eftirgrennslan þeirra báta sem eru í grenndinni ber ekki árangur.
Landhelgisgæslan minnir skip og báta á að hlusta á neyðarrás 16 á VHF sem er mikilvægur þáttur í öryggismálum sjómanna.