Greint er frá málinu á fjölmörgum hollenskum fjölmiðlum á borð við 112 Groningen, Belastingdienst og Crime-nieuws.
Upphaf málsins má rekja til þess að árið 2020 var annar bróðirinn, 43 ára karlmaður, stöðvaður af landamæravörðum á Schiphol flugvelli í Amsterdam með 36 þúsund evrur í farangrinum. Hann gat ekki gefið skýringu á því hvers vegna hann væri með svo háar fjárhæðir í fórum sínum.
Þegar bankayfirlit mannsins var rannsakað komu í ljós fjölmargar innlagnir á reiðufé sem komu ekki heim og saman við tekjur mannsins. Lögreglan handlagði tvo síma í hans eigu og rannsókn á símagögnum vakti upp grunsemdir um fíkniefnasmygl.
Maðurinn er grunaður um að hafa staðið að smygli á fíkniefnum til Dóminíska lýðveldisins, bæði með því að koma efnunum fyrir í hversdagslegum hlutum og senda þá til landsins, og með því að notast við burðardýr sem fluttu efnin í ferðatöskum.
Þá kemur fram í fréttatilkynningu lögreglunnar að maðurinn sem um ræðir og 53 ára gamall bróðir hans séu grunaðir um að hafa sett upp smyglleið á fíkniefnum til Íslands, sem fólst í því að efnum var komið fyrir í bílapörtum og send hingað til lands. Fram kemur í tilkynningunni að með bílapörtunum hafi fylgt falsaðir vörureikningar, sem létu líta út fyrir að um vörusendingar væri að ræða.
Lögreglan hefur lagt hald á síma, tölvur, bíla og reiðufé sem fannst á heimilum mannanna og eiga þeir yfir höfði sér ákæru fyrir peningaþvætti, fíkniefnasmygl og fölsun.