Hutchins lést af völdum voðaskots á tökustað í Nýju Mexíkó í október 2021. Baldwin hélt á byssunni og var að æfa sig að skjóta úr henni þegar skaut hljóp úr byssunni og hæfði Hutchins. Baldwin var ákærður fyrir manndráp af gáleysi en saksóknarar felldu ákæruna niður á fimmtudag. Vísuðu þeir til nýrra gagna sem krefðust frekari rannsóknar. Tóku þeir sérstaklega fram að Baldwin hefði þrátt fyrir þetta ekki verið hreinsaður af allri sök ennþá.
Gloria Allred, lögmaður foreldra Hutchins og systur, segir fjölskylduna vongóða um sigur í einkamáli. Hún stefnir einnig Hönnuh Gutierrez-Reed, vopnaverðinum á tökustaðnum, en hún sætir einnig ákæru fyrir manndráp af gáleysi.
Baldwin hefur þegar gert sátt við eiginmann Hutchins og tíu ára gamlan son. Hutchins var 42 ára gömul þegar hún lést, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Tökur á kvikmyndinni hófust í Montana á ný í vikunni, um einu og hálfu ári eftir voðaskotið. Þeim á að ljúka í maí. Engin nothæf skotvopn eða skotfæri verða leyfð á tökustaðnum.
„Hann getur flúið til Montana og þóst vera bara leikari í villta vestursmynd en í raunveruleikanum getur hann ekki komið sér undan þeirri staðreynd að hann lék stórt hlutverk í harmleik sem hafði raunverulegar afleiðingar,“ sagði Allred um Baldwin.