Í heimildaröðinni Skuggastríð sem unnin var af fréttamönnum miðlanna DR, NRK, SVT og Yle er greint frá því að rússneski herinn hafi undanfarið kortlagt vindmyllugarða á sjó, gasleiðslur og sæstrengi á norðurslóðum. Áætlunin er sögð þáttur í undirbúningi Rússa ef til átaka kæmi við Vesturlönd.
Greint hefur verið frá því að rússnesk skip hafi kortlagt og ógnað íslenskum sæstreng.
Óvissutímar
Þórdís Kolbrún segir að eftirlit hafi verið aukið vegna málsins.
„Við vitum að þessir kaplar eru mjög krítískir innviðir. En það er mjög mikilvægt að hafa í huga að í Norðursjó er um að ræða kapla sem ekki bara flytja gögn heldur orku, gas og fleira. Þannig það er ákveðinn stigsmunur í því. Það er ástæða fyrir auknu kafbátaeftirliti, allt er það gert til að bæta okkar stöðu vegna hættunnar,“ segir Þórdís Kolbrún í samtali við fréttastofu.

Í umfjöllun norrænu miðlana er fjallað um möguleg skemmdarverk ýmsum innviðum. Þórdís Kolbrún segir að gögnin sem fram hafi komið veki upp ýmsar spurningar.
„Við lifum á óvissutímum og þetta eru ekki góðar fréttir. En ég vil ítreka að það er ekki þannig að við séum í meiri hættu en Norðurlöndin en við erum heldur ekki ónæm fyrir því sem er að gerast. Þess vegna viljum við líka vinna þéttar með okkar samstarfsríkjum, sérstaklega Bandaríkjunum, á grundvelli okkar tvíhliða varnarsamnings.“
Hún segir áherslu lagða á að Íslendingar verði verðugir bandamenn í Atlantshafsbandalaginu. Því fylgi einnig aukinn fælingarmáttur.