Í hvert skipti sem við greiðum fyrir vöru og þjónustu með debet korti fer greiðslan í gegnum greiðslumiðlun Visa og eða Mastercard í útlöndum sem taka auðvitað þóknun fyrir það. Auk þess tekur viðskiptabanki okkar á Íslandi sína þóknun. Þetta hefur í för með sér aukinn kostnað fyrir okkur og þetta fyrirkomulag varðar líka þjóðaröryggi að mati Seðlabankans.
Seðlabankinn hefur þrýst á það í mörg ár að komið verði á fót innlendri greiðslumiðlun. Nú síðast ákynningarfundi fjármálastöðugleikanefndar í síðasta mánuði var ítrekað að þetta gerðist sem fyrst. Málið varðaði þjóðaröryggi og hagkvæmni fyrir almenning.

Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans segir heilmikla innviði vera á bakvið greiðslumiðlunarkerfi. Frá því lög á evrópskum grunni voru sett árið 2021 hafi bankarnir verið að byggja nauðsynlega innviði fyrir innlenda greiðsluþjónustu sem byggi á millfærslukerfinu.
„Þetta eru auðvitað risastór verkefni. Innviðirnir eru 95 prósent tilbúnir,“ segir Lilja Björk og allir væru að leggja sig fram um lausnir.
Fulltrúar bankanna og Seðlabankans væru í stöðugum viðræðum um þetta en spurningin væri meðal annars hver ætti að reka slíkt greiðslumiðlunarkerfi. Kerfi sem sæi um millifærslur af reikningum fólks til að mynda í gegnum app til verslana og þjónustuaðila. Nái þyrfti saman um hvað lausn verði notuð.
„Þetta er þá bara hliðarleið. Til hliðar við kortakerfið sem hægt er að nota alþjóðlega og með ákveðnum vörnum og endurkröfurétti. Þannig að þetta er bara ein önnur leið til að framkvæma greiðslur eins og við þekkjum þær í dag, sem eru bara millifærslur,“ segir Lilja Björk.

Spurningin væri hvort ríkið eða einkaaðilar ættu að reka grunninn í kerfi sem þessu og auðvitað þyrfti að innheimta gjöld af þjónustunni til að standa undir kostnaði. Vissulega mætti nýta reynsluna af Reiknistofu bankanna.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að unnið hafi verið að málinu í forsætisráðuneytinu allt frá því Már Guðmundsson þáverandi seðlabankastjóri sendi forsætisráðherra bréf um nauðsyn innlendrar greiðslumiðlunar. Hún hefur skipað starfshóp um málið sem skila á af sér tillögum að mögulegu frumvarpi í næsta mánuði. Málið varði ekki bara þjóðaröryggi heldur einnig mikinn kostnað við núverandi kerfi.
„Ef við skoðum hlutfallslegan kostnað af greiðslumiðlun hér á landi og samanborið við nágrannalönd okkar, þá er kostnaðurinn umtalsvert hærri hér en til dæmis í Noregi. Eitthvað af því má rekja til stærðarhagkvæmni. En það útskýrir ekki allan muninn. Þannig að við teljum að í þessu máli geti líka falist mikil kjarabót fyrir almenning,“ segir Katrín Jakobsdóttir.