Innlent

Ungi öku­maðurinn á Ísa­firði úr lífs­hættu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá björgunaraðgerðum á föstudagskvöldið.
Frá björgunaraðgerðum á föstudagskvöldið. Vísir

Ungur karlmaður sem hafnaði í sjónum við Skutulsfjarðarbraut á Ísafirði á föstudagskvöldið er úr lífshættu. Hann er enn á gjörgæsludeild Landspítalans. Þetta staðfestir Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum, í samtali við Vísi.

Það var á tíunda tímanum á föstudagskvöldið sem ökumenn urðu varir við það að bíll fór í sjóinn. Um er að ræða karlmann undir tvítugu. Ekki eru gefnar upp líklegar ástæður þess að bíllinn hafnaði í sjónum. Hlynur segir það í rannsókn sem miði vel.

Hlynur þakkar snöggum viðbrögðum annarra ökumanna, björgunarsveitar, lögreglu, sjúkraflutningum, slökkviliði og fleirum að tekist hafi að bjarga unga manninum úr sjónum. Hann var fluttur á sjúkrahúsið á Ísafirði þar sem heilbrigðisstarfsfólk hafi hlúið vel að honum. Svo var hann fluttur með sjúkraflugi suður á Landspítalann.

„Þetta er á þeim tíma sem það er töluverð umferð þarna. Það voru nokkrir vegfarendur sem ýmist komu keyrandi á móti bílnum eða eitthvað á eftir honum. Nokkrir sem sáu þetta,“ segir Hlynur aðspurður um þátt almennings sem hafi skipt sköpum.

Ökumaðurinn var einn í bílnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×