Skoðun

Á­skorun til heil­brigðis­ráð­herra

Emma Marie Swift skrifar

Á dögunum vakti Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður athygli heilbrigðisráðherra á því að nýir foreldrar á Íslandi sitja ekki allir við sama borð þegar kemur að heimavitjunum ljósmæðra, eða því sem kallað er heimaþjónusta í sængurlegu.

Hér er um að ræða kerfi sem hefur reynst vel og virkar þannig að þegar foreldrar eignast barn og fara heim af fæðingarstað, þá er þeim úthlutað ljósmóður sem vitjar þeirra heima fyrstu tíu dagana eftir fæðingu. Hlutverk hennar er m.a. að fylgjast með líkamlegri og andlegri líðan móður, styðja við foreldra í nýju hlutverki, svara spurningum og gefa góð ráð. Hún fylgist einnig með heilsu og líðan barnsins og aðstoðar við brjóstagjöf ef á þarf að halda. Yfirleitt sinnir sama ljósmóðir fjölskyldunni þessa fyrstu tíu daga og myndast oft með þeim traust og gott samband. Sýnt hefur verið fram á með fjöldamörgum rannsóknum að stuðningur, ráðgjöf og fræðsla á þessum fyrstu dögum eftir fæðingu er mikilvæg bæði móður og barni – og í raun fjölskyldunni allri.

Það kemur eflaust mörgum á óvart að hér sitja ekki allir foreldrar á Íslandi við sama borð. Eins furðulegt og það kann að virðast er þessi þjónusta einungis veitt mæðrum og nýburum sem útskrifast af fæðingarstað innan 72 klukkustunda frá fæðingu. Það sem þetta þýðir er að ef fylgjast þarf með heilsu og líðan móður og/eða barns í meira en 72 klukkustundir á sængurlegudeild eða vökudeild þá fara þau heim að eftirliti loknu án þess að fá heimaþjónustu ljósmóður – en á sama tíma fá hraustar mæður með heilbrigða nýbura heimaþjónustu allt að tíu dögum eftir fæðingu. Þetta er auðvitað öfugsnúið og ósanngjarnt.

Ég skora á heilbrigðisráðherra að bregðast við fyrirspurn Jóhanns Páls og leiðrétta þessa mismunun á réttindum og aðstæðum nýrra foreldra á Íslandi.

Höfundur er ljósmóðir á Fæðingarheimili Reykjavíkur og lektor við Háskóla Íslands.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×