Þau saka bæði hvort annað um að bera ábyrgð á árekstrinum en Sanderson fer fram á um 41,5 milljónir króna í skaðabætur.
Lög Utah segja að sá sem er neðar í skíðabrekkunni eigi réttinn en bæði Sanderson og Paltrow segja að hinn aðilinn hafi klesst aftan á sig. Þau segjast bæði hafa verið neðar í brekkunni.
Sjá einnig: Segir málaferli gegn Paltrow vera „kjaftæði“
Búið er að fjalla mikið um heilsu hins 76 ára gamla Sanderson í réttarhöldunum en lögmenn Paltrow hafa reynt að sýna fram á að versnandi heilsu hans megi rekja til hás aldurs. Þeir hafa sömuleiðis fjallað mikið um það að Sanderson hafi sýnt frægð Paltrow óeðlilega mikinn áhuga.
Þá hafa þeir meðal annars beint athygli að því að Sanderson hafi áður greinst með heilaskaða.
Lögmenn Sanderson hafa fengið læknasérfræðinga, einkalækni hans, skíðafélaga og dóttur hans til að bera vitni. Dóttir hans sagði hann hafa sýnt breytta hegðun eftir áreksturinn.
Lögmenn Paltrow spurðu dóttur Sanderson meðal annars út í ummæli hans um það að hann væri sjálfur frægur eftir að skollið saman við Paltrow. Hún var einnig spurð út í tölvupóst þar sem talað er um upptöku á Go Pro myndavél sem aldrei hefur fundist.