Rannsóknarnefnd hefur rannsakað veisluhöld í Downingstræti árin 2020 og 2021 sem vakti mikla reiði meðal landsmanna, enda á þeim tíma sem samkomubann var í gildi í Bretlandi. Nefndin mun kveða upp úrskurð eða ákveða refsiaðgerðir vegna málsins í sumar. Niðurstaða nefndarinnar verður svo til umræðu í neðri deild breska þingsins.
Annars vegar er um að ræða kveðjuviðburð 13. nóvember 2020 þar sem á milli 20 og 30 manns komu saman. Þar hélt Johnson sjálfur ræðu fyrir gesti en nokkrum dögum fyrr kynnti hann samkomutakmarkanir fyrir þjóð sína þar sem gert var ráð fyrir að einungis tveir mættu koma saman.

Johnson sagði þennan viðburð nauðsynlegan þar sem virtur starfsmaður hafi verið kvaddur og mikilvægt fyrir hann sjálfan að vera á staðnum.
Á þeim þremur tímum sem Johnson sat fyrir svörum nefndarinnar átti hann í orðaskiptum við Bernard Jenkin, þingmann Íhaldsflokksins, sem minnti Johnson á að hvergi í viðmiðum stjórnarinnar væri minnst á að kveðjusamkomur væru nauðsynlegar.
Síðar í yfirheyrslunum var Johnson spurður hvort einhver hafi fullvissað hann um að engar reglur væru brotnar með veisluhöldunum. Jafnframt hvort hann hafi fengið álit lögfræðinga, en Johnson sagði svo ekki hafa verið. Ráðgjafar hans hafi fullvissað hann um að allt hafi verið eftir settum reglum, og hann hafi treyst þeim.
Þá var afmælisveisla Johnson, sem haldin var í júní 2020, til umræðu. Hann sagði þann viðburð einnig hafa verið tengd vinnu en lögreglan í Bretlandi setkaði Johnson vegna afmælisveislunnar.