Skoðun

Gjald­felling leik­skóla­stigsins er ekki lausnin

Jónína Einarsdóttir skrifar

Það er ótrúlega dapurt að heyra enn eina umræðuna um vöntun leikskólaplássa í Reykjavík í fjölmiðlum. Í Kastljós mættu Árelía Eydís Guðmundsdóttir og Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir og ræddu þessi mál. Mér sem leikskólastjóra fannst gott að hlusta á Árelíu sem virðist að einhverju leyti skilja vandann sem þessi mál eru í. Innritunarmálin eru flókin eins og Árelía sagði og sama hvað Alda segir þá eru engar skyndilausnir í þessum málum.

Það var gott að heyra að formaður skóla og frístundaráðs ræddi um að það væri ánægja með það faglega starfs sem unnið er í leikskólum borgarinnar og talaði svo um mikilvægi þess að gera starfsstétt dagforeldra að meira aðlagðandi starfi. Það hefði nú mátt ræða aðeins meira um starfsstétt leikskólakennara.

Alda kom með innlegg sjálfstæðisflokksins inn í umræðuna en þar sagði hún m.a. að borgarrekna lausnin sé ekki að ganga. Alda vill fara hægri stefnu í leikskólamálum þar sem allir eiga að geta komið að borðinu með lausn. Hún talar um að láta af öllu forminu gagnvart rekstaraðilum, ,,þetta ætti bara að vera þannig að það ætti bara að uppfylla ákveðnar kröfur, eða reglugerðir og svo bara ættu allir að geta komið að borðinu að hjálpa okkur að leysa vandann, það er þá með því að vera með einkarekna leikskóla, foreldrarekna leikskóla, foreldra styrki, dagforeldra, kannski gæti verið að einhver starfsmannafélög gæti líka viljað koma á fót einhverjum leikskóla, já fjölga grunnskólum sem taka inn 5 ára börn – það eru svo margar lausnir í boði sem hægt væri að beita ef við myndum hugsa kerfið svona– taka þessa hægri hugmyndafræði á þetta, þá værum við líka að dreifa áhættunni“.

Það er nú bara þannig að það eru lög í landinu um rekstur leikskóla, það eru lög um ráðningar inn í leikskóla, það eru lög um mönnun leikskóla sem við leikskólastjórnendur erum endalaust að benda á að sveitafélög landsins eru engan veginn að ná ekki að fara eftir.

Í morgun hlustaði ég svo á foreldri í Bítinu, hana Thelmu Björk Wilson segja : ,,foreldrar vilja marga valmöguleika, foreldar vilja pláss sama hvort það sé borgarrekinn eða einkarekinn leikskóli. Önnur sveitafélög hafi getað brugðist við og greitt heimgreiðslur til að fólk geti þá greitt fyrir einhversskonar barnþjónustu, ég hef heyrt um fólk sem tekur sig saman og greiðir fyrir einhversskonar dagvistun, bara heimafyrir, með kannski fleiri börnum 2-3 börn og nái þá að nýta heimgreiðslurnar til þess, sama hversu þær eru lágar, þær eru ekki hugsaðar sem laun fyrir starfandi fólk heldur til þess að brúa eitthvað bil og sem sárabætur fyrir fjölskyldur“.

Það vekur óhug hjá mér að foreldrar líti svo á að heimgreiðslur séu úrræði til að foreldrar geti farið í svarta atvinnustarfsemi og greitt bara einhverjum pening til að sinna börnunum – í heimahúsum. Eru foreldrar í alvöru tilbúnir að fara að hafa hér svarta atvinnustarfsemi og hafa börn sín sem skjólastæðinga í því? Við í leikskólunum þurfum t.d. að athuga með sakavottorð hjá nýju starfsfólki, hvað með tryggingar barnanna ef eitthvað kemur fyrir, hvað með aðbúnað barnanna, hvað með vottuð leiksvæði, hvað með lífeyrisgreiðslu barnagæsluaðilans…. nei erum við ekki komin á ansi hálan ís ef þetta er lausnin sem fólk heldur að sé gerleg í leikskólamálum?

Það er dapurt að hlusta á þessar lausnir sem taka engar á aðal vandanum – mönnum leikskólanna sem fyrir eru. Það eru leikskólar enn í dag með laus pláss en okkur vantar fólk – ekki bara einhvern – heldur vantar okkur fagfólk. Foreldrar vilja fá pláss og vilja að mönnun verði bara kippt í liðinn fyrir haustið. En því miður vitum við og væntanlega þið líka að það er ekki raunhæfur möguleiki þar sem umsóknir í störf innan leikskólanna eru ansi fáar. Við leikskólastjórar verðum að standa í lappirnar að við viljum ekki bara fá einhvern inn og það ætti að vera okkar allra markmið líka, sem og foreldra. Við viljum ekki vera í endalausum endurráðningnum eða vera með alla okkar starfsmenn án þess að tala íslensku – við erum fyrsta menntastigið í menntun íslenskra barna og okkar helsta verkefni er að kenna undirstöðu í íslensku. Staðan er bara alls ekki auðveld og alveg sama hvað hver og einn segir þá er það launaliðurinn sem er bara okkar helsti veikleiki. Nú segja einhverjir – ,,nei þetta er nú bara svo gefandi starf að allir ættu að sinna því“. Af hverju er þá ekki biðröð eftir því að fá vinnu í leikskóla? Margir segja að ,,allir ættu að prófa að vinna í leikskóla“ en því miður þá eru bara einfaldlega ekki allir hæfir til að starfa í leikskóla – við þurfum ekki starfsfólk í starfsprufur eða að þeir mæti einungis til þess að læra sjálfir íslensku af börnunum í leikskólanum. Við þurfum starfsmenn sem eru með fagþekkingu og faglegan metnað til að sinna starfinu. Við megum aldrei missa sjónar af því að það eru fagþekking og menntun starfsmanna sem á að vera okkar sameiginlega markmið – okkar leikskólastjóranna og pólitíkurinnar sem vill að börn fái góða menntun og þjónustu. Það er bara einfaldlega þannig að kapítalísk hugsun ræður mörgu hér á landi. Alda talar um hægri lausnir – já takk tökum einmitt hægri lausnina – horfum bara blákalt á framboð og eftirspurn. Af hverju er ekki boðið upp á hærri laun þegar slást þarf um starfsfólkið, af hverju er ekki farið í það að gera starf kennara að eftirsóknarverðu starfi þar sem við þurfum að sýna fram á faglega metnað og menntun til að sinna því? Samkvæmt lögum eiga 2/3 starfsmanna leikskóla að vera kennaramenntaðir. Núna er staðan sú að rétt rúm 20 % starfsmanna í leikskólum Reykjavíkurborgar eru með leyfisbréf kennara. Með hugmyndum Öldu og sjálfstæðismanna að senda bara öll 5 ára börn fyrr í grunnskólann þá fækkum við enn frekar þeim fagmönnum sem eru á gólfum leikskólans nú þegar – hvaða starfsmenn ætlar Alda að nýta til að sinna 5 ára börnunum í grunnskólanum – jú allir leikskólakennararnir taka því fegins hendi að hoppa yfir í hið margrómaða starfsumhverfi grunnskólanna. Vá páskafríið, jólafríið og langa sumarfríið bara í boði sjálfstæðisflokksins. Nei því miður þá megum við bara alls ekki við því - við erum að missa nóg af kennurum nú þegar yfir á næsta skólastig. Starfsmannavelta er mjög dýr og hefur neikvæð áhrif á starfsemi leikskólanna, börnin og foreldrana. Nú eins og svo oft áður er starfsmannavelta margra leikskóla gífurleg með tilheyrandi röskun í starfi. Til lengri tíma er það bæði skaðlegt og dýrt að keyra leikskóla á ófaglærðu fólki þar sem endalausar endurráðningar ráða för.

Ég er svo til í hægri sveiflu inn í leikskólana en hún fellst bara í því að hækka verulega laun leikskólakennara – það eru nefnilega margir leikskólakennarar úti í atvinnulífinu, þeir vilja bara vera í starfsumhverfi þar sem aðbúnaður er betri og launin eru hærri – og sækja því ekki í starf leikskólakennarans. Hættum þessu tali um lausnir sem innihalda enga menntaða kennara, hættum að gjaldfella menntun kennara, hættum að gjaldfella börnin okkar með því að bjóða þeim bara upp á að einhver - hver sem er sinni þeim. Minnum okkur líka á að kjarasamningar leikskólakennara eru lágmarks samningar – það getur hver og einn tekið ákvörðun kapítalistans og yfirborgað þegar það þarf að slást um fagfólkið.

Höfundur er leikskólastjóri í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×