Stofnunin greinir frá því að ekki hafi tekist að færa fullnægjandi sönnur fyrir staðhæfingunni. Hins vegar séu taldar nokkrar líkur á því að uppruna veirunnar megi rekja til rannsóknarstofu í Wuhan í Kína. Bandaríska alríkislögreglan, FBI, sagðist nýlega hafa komist að sömu niðurstöðu, með nokkurri vissu.
Ekki er einhugur meðal leyniþjónustustofnana í Bandaríkjunum vegna málsins og fyrirvari hefur verið settur við meinta uppgötvun. Bandaríska leyniþjónustan, CIA, hefur til dæmis hvorki sagt af eða á, að sögn Guardian.
Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Joes Biden, sagði í yfirlýsingu í dag að skiptar skoðanir væru um málið. Stjórn Bidens ætli hins vegar að setja aukinn þunga í rannsóknir og stefnan sé sett á að komast að ótvíræðri niðurstöðu.