Skoðun

Áskorun um að víkja vegna ákæru

Þorlákur Axel Jónsson skrifar

Þetta gengur ekki, það er ljóst. Hér með skora ég á Heimi Örn Árnason forseta bæjarstjórnar Akureyrar að víkja úr embættum sínum á meðan ákæran vegna líkamsmeiðinga af gáleysi er til meðferðar hjá yfirvöldum. Það er sjálfsagt að hver maður verji sig fyrir dómi. Á sama tíma verður að gera þá kröfu á Akureyrarbæ að þar kannist pólitískir fulltrúar við þá ábyrgð sem hvílir á bænum þegar kemur að því að gæta öryggis barna. Hoppukastalaslysið sýnir að pottur er brotinn í þeim efnum. Þúsundir barna og unglinga koma til bæjarins á hverju ári til þess að taka þátt í íþróttaleikum og skemmtunum af ýmsu tagi. Bærinn tekur beinan þátt í því starfi með því til dæmis að útvega gistingu í skólum. Akureyrarbær getur ekki vísað frá sér ábyrgð. Ég skora á bæjarstjórn Akureyrar að taka málið til umfjöllunar á bæjarstjórnarfundi. Meirihlutinn í bæjarstjórn getur þá útskýrt yfirlýsingu sína um takmarkaða ábyrgð bæjarins á öryggismálum: „Ekki á okkar vegum“ segir meirihlutinn. Ég skora á minnihlutann að taka til umræðu á bæjarstjórnarfundi þær siðferðilegu spurningar sem hann segir réttilega að svara verði vegna ákvörðunar um stöðu forseta bæjarstjórnar. Hver eru svörin? Hér er vitanlega ekki felldur neinn dómur um persónu eða fyrri störf þeirra sem hlut eiga að máli. Verði forseti bæjarstjórnar svo lánsamur að niðurstaða dómara verði honum hagfelld, þá er hægt að snúa aftur í bæjarpólitíkina. Það skiptir þó engu máli fyrir þá stöðu mála sem nú er uppi. Það er ekki eins og um sé að ræða einhvern sjálfskipaðan rannsóknarrétt úti í bæ. Ákæra er gefin út af fulltrúum almennings, fulltrúum laga og réttar. Ákæra er því aðeins gefin út að líklegt þyki að hún leiði til sakfellingar. Við hljótum að vera sammála um gera verður ýtrustu kröfur þegar kemur að öryggi barna. Hagsmunir íþróttafélaga sem skortir fé eru léttvægir í því efni. Í kosningabaráttunni kom ekkert fram um rannsókn á mögulegri ábyrgð frambjóðenda vegna alvarlegra slysa á börnum. Lýðræðislegt umboð til þess að sitja sem ákærður forseti bæjarstjórnar er ekki til staðar. Ég leyfi mér að benda á það augljósa, að eina ákvörðunin samboðin forseta bæjarstjórnar Akureyrar er að víkja.

Þorlákur Axel Jónsson

Akureyri




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×