Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um útflutning hvalkjötsins en þegar hvalbátarnir létu úr höfn til hvalveiða þann 22. júní síðastliðinn voru efasemdir um að markaður væri fyrir afurðirnar.
Sjálfur kvaðst forstjóri Hvals engar áhyggjur hafa. Það yrði ekkert vesen, sagði Kristján Loftsson í sumar. Núna hefur hann þó ekkert fengist til að tjá sig um útflutninginn.

Fátt virðist geta komið í veg fyrir að hvalkjötið nái til kaupenda. Flutningaskip með farminn er þegar komið inn í lögsögu Japans. Og Hagstofan er búin að birta tölur um gjaldeyristekjur af kjötinu.
Norska frystiskipið Silver Copenhagen er búið að vera einn og hálfan mánuð á leiðinni. Það sigldi frá Hafnarfirði þann 21. desember, fór suðurleiðina um Atlantshaf, suður fyrir syðsta odda Afríku, síðan þvert yfir Indlandshaf til Singapore, þar sem áð var í hálfan sólarhring þann 29. janúar, samkvæmt siglingasíðum.

Skipið var í dag statt við eyjuna Okinawa og átti eftir tveggja sólarhringa siglingu að borginni Fukuoka en þangað er áætlað að það nái höfn næstkomandi miðvikudag, þann 8. febrúar.
Farmurinn er 2.576 tonn af frystum hvalaafurðum. Útflutningsverðmæti, fob-verð, er 2.771 milljón króna, samkvæmt tölum Hagstofunnar.
Til samanburðar birtum við tölur um útflutning hvalkjöts á fimm síðustu veiðiárum þar á undan, 2014 til 2018. Bæði eru tonnafjöldinn og verðmætin mun meiri núna, þótt fjöldi veiddra hvala hafi ekki verið meiri. Það segir þá sögu að eldri birgðir séu hluti af farminum að þessu sinni. Raunar þarf að fara aftur til ársins 1987 til að finna dæmi um jafn mikinn útflutning hvalkjöts og núna.

Það hefur verið spurt um efnahagslega þýðingu hvalveiða fyrir þjóðarbúið. Sé útflutningstekjum nýliðins árs hins vegar deilt niður á 150 starfsmenn Hvals hf. koma um 18,5 milljónir króna í hlut hvers.
Ef við gefum okkur að tæplega helmingur kjötsins sé frá fyrri vertíðum má ætla að vertíð síðasta sumars hafi skilað um eða yfir tíu milljónum króna í gjaldeyristekjur á hvern starfsmenn, eftir þriggja mánaða vertíð. Það þýðir yfir þrjár milljónir króna í tekjur á hvern starfsmann á mánuði.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: