Tiktok er í eigu kínverska fyrirtækisins Bytedance en það nýtur mikillar hylli á meðal ungmenna á vesturlöndum jafnt sem annars staðar í heiminum. Bandarísk stjórnvöld hafa reynt að ná samningum um vernd persónuupplýsinga bandarískra notenda forritsins en án árangurs. Þau óttast að kommúnistastjórnin í Kína fái aðgang að persónuupplýsingum notenda en því hefur Bytedance hafnað.
Fyrir Bandaríkjaþingi liggur nú umfangsmikið frumvarp um tímabundnar fjárheimildir til reksturs alríkisstjórnarinnar. Búist er við því að atkvæði verði greidd um frumvarpið í þessari viku. Verði það samþykkt verður ríkisstjórninni falið að semja reglur um að alríkisstofnanir fjarlægi forritið af öllum tækjum í eigu þeirra.
Nokkur fjöldi alríkisstofnana bannar nú þegar forritið, þar á meðal Hvíta húsið, varnarmála-, heimavarna- og utanríkisráðuneytin, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Nítján ríki af fimmtíu banna ennfremur notkun forritsins á opinberum tölvum að hluta til. Flestar þeirra takmarkana voru settar á undanfarnar tvær vikur.
Bandaríska viðskiptatímaritið Forbes sagði frá því fyrr á þessu ári að móðurfélag Tiktok hafi ætlað sér að nota samfélagsmiðilinn til þess að fylgjast með staðsetningu ákveðinna bandarískra notenda án vitneskju þeirra eða samþykkis.
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, vildi banna nýjum notendum að sækja Tiktok eftir að það byrjaði að öðlast vinsældir árið 2020. Hann var hins vegar gerður afturreka með þær aðgerðir fyrir dómstólum.