Töluverð umræða hefur skapast um öryggi ferðamanna í Reynisfjöru eftir nokkuð tíð banaslys þar, síðast í júní. Fjaran er afar vinsæll áfangastaður ferðamanna hér á landi en aðstæður geta reynst varasamar.
Á vef Ferðamálastofu kemur fram að búið sé að ljúka uppsetningu viðvörunar- og upplýsingaskilta við Reynisfjöru. Sett voru upp eitt ljósaskilti, þrjú stór upplýsingaskilti og sex leiðbeinandi skilti. Eitt upplýsingaskiltanna er um hætturnar vegna öldunnar og er það við hlið ljósaskiltisins sem er beintengt ölduspárkerfi Vegagerðarinnar.

Bent er á að þrátt fyrir að Reynisfjöru sé aldrei lokað sé hún svæðaskipt.
„Þegar gult ljós logar á fólk ekki að fara inná gula svæðið og þegar rautt ljós logar á fólk ekki að fara inná rauða svæðið eða ekki lengra en að ljósaskiltinu. Gestir eiga þá að halda sig uppi á fjörukambinum en sjónarspilið þaðan er magnað á að horfa úr öruggri fjarlægð.“
Segir á vef Ferðamálastofu að mönnuð gæsla, þó ekki nema þegar aðstæður eru metnar rauðar, væru gott næsta skref til að tryggja öryggi í Reynisfjöru. Til að fjármagna slíka gæslu þurfi landeigendur þó að taka sig saman og innheimta aðstöðugjald af gestum.
Auk skiltanna var komið fyrir þrjú hundruð metra langri keðju meðfram bílastæðinu sem leiðir fólk eftir göngustíg og framhjá skiltunum. Löggæslumyndavélum var komið fyrir á mastri í fjörukambinum. Myndum þaðan er streymt á varðstofu lögreglunnar á Suðurlandi á Selfossi.

„Góðar merkingar er ein af aðal forsendum þess að hafa skýra upplýsingagjöf. Með nýju ljósaskiltunum, í bland við kort og skilaboða á þremur tungumálum, er vonast til að gestir Reynisfjöru átti sig á þeim hættum sem leynast á svæðinu og hagi ferðum sínum eftir því. Skilti, sama hversu góð þau eru, stoppa ekki neinn sem ætlar sér niður í flæðarmál sama hvað — en þau eru nauðsynleg til að bægja sem flestum á örugga staði til að njóta Reynisfjöru í allri sinni dýrð,“ segir á vef Ferðamálastofu.