Sky News greinir frá því að viðbúnaður sé mikill í Babbs Mill almenningsgarðinum í Solihull eftir að tilkynning barst um að börn, sem hafi verið að leik, hafi fallið í gegnum ísilagða tjörnina.
Lögregla hefur ekki staðfest hvað mörg börn hafi fallið í gegnum ísinn, eða þá hvort einhverra sé saknað. Samkvæmt fyrstu fréttum af vettvangi voru sex börn að leik á tjörninni.
Lögreglustjórinn Richard Harris segir að mikill fjöldi slökkviliðs- og lögreglumanna sé á vettvangi og að leit standi enn yfir.
„Eftir að hafa bjargað fjórum börnum þá höldum við leit og björgun áfram til að kanna hvort að fleiri séu í tjörninni,“ segir Harris.

Hann segir að að teknu tilliti til hitastigsins, aldurs barnanna sem við sögu komi og þess tíma sem liðinn sé frá slysinu, þá sé „ekki lengur um leitar- og björgunaraðgerð að ræða“.
Sjónarvottar segjast hafa séð slökkviliðsmenn brjóta ísinn í leitaraðgerðum sínum. Mikill fjöldi fólks á vettvangi hafi verið í miklu áfalli og hafi þrír þeirra þurft á læknisaðstoð að halda.
Ekki hafa verið gefnar nánari upplýsingar um aldur eða ástand þeirra barna sem tókst að ná úr tjörninni.