RÚV sagði frá könnuninni í gærkvöldi, en samkvæmt henni mælist Sjálfstæðisflokkurinn sem fyrr stærstur – fengi 24,1 prósent nú samanborið við 24,4 prósent í kosningunum 2021.
Niðurstaða könnunar Gallups er í takti við könnun Maskínu í síðustu viku sem sýndi einnig stóraukið fylgi Samfylkingarinnar.
Bæði Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn héldu landsfundi sína í haust þar sem Bjarni Benediktsson var endurkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins, en Kristrún Frostadóttir tók við formennsku í Samfylkingunni af Loga Einarssyni.
Í könnun Gallup mælast bæði Framsóknarmenn og Píratar með rúmlega 12 prósenta fylgi, en Vinstri græn, flokkur Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, mælist með 7,5 prósenta fylgi, svipað og Viðreisn.
Miðflokkurinn mælist með 5,6 prósenta fylgi, Sósíalistaflokkurinn 5,2 prósent og Flokkur fólksins 4,5 prósent.
Samkvæmt könnuninni fengi Sjálfstæðisflokkurinn sextán þingmenn kjörna, Samfylkingin fimmtán, Framsókn og Píratar átta, Vinstri græn og Viðreisn fimm og Miðflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn þrjá.
Stuðningur við ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar minnkar um þrjú prósent milli kannana og er nú 46 prósent.