Það var á tólfta tímanum í gærkvöldi sem á þriðja tug grímuklæddra karlmanna ruddist inn á skemmtistaðinn, fóru rakleiðis í herbergi á neðri hæð staðarins og eftir lágu þrír ungir karlmenn særðir eftir hnífsstungur. Hópurinn lét sig svo hverfa út í nóttina.
Lögregla mætti á staðinn og voru þrír fluttir alvarlega særðir á bráðamóttöku Landspítalans. Tíu voru handteknir í aðgerðum lögreglu í dag. Fimm hafa verði úrskurðaðir í gæsluvarðhald.
Ásthildur Bára Jensdóttir, meðeigandi Bankastræti Club sem stödd var á staðnum í gærkvöldi þegar hópurinn mætti á svæðið, áréttaði í samtali við Mbl.is í kvöld að skemmtistaðurinn bæri ekki ábyrgð á því sem hefði gerst. Eigendur og starfsfólk væri í áfalli.
Ásthildur treysti sér ekki í viðtal við fréttastofu fyrr í dag. Þá er Birgitta Líf Björnsdóttir, sem á þriðjungshlut í staðnum og mætti kalla andlit staðarins sem opnaður var sumarið 2021, stödd í fríi á Balí.
Í færslu á Instagram-síðu skemmtistaðarins í kvöld kemur fram að lokað hafi verið í kvöld og öllum sem voru á staðnum í gær boðin áfallahjálp. Opnað verði á ný á laugardag.

„Stunguárásir í miðbæ Reykjavíkur hafa orðið allt of algengar upp á síðkastið. Þetta er alvarleg og sorgleg þróun,“ segir í færslunni. Staðurinn sé í Samtökum reykvískra skemmtistaða sem berjist gegn ofbeldi. Farið verði yfir alla verkferla og öryggisgæsla aukin til að tryggja öryggi viðskiptavina.
„Við erum svo þakklát fyrir viðbrögð þeirra sem komu að atburðarásinni í Bankastræti í gær. Starfsfólki, dyravörðum, gestum, lögreglu og sjúkraflutningamönnum. Allir brugðust rétt við.“
Þá er nefnt að tveir dyraverðir hafi verið á vakt eins og reglur segi til um. Það hafi ekki verið nóg til að stöðva 27 vopnaða menn sem hafi verið með skýran ásetning að hafa uppi á einstaklingum og gera þeim mein.