Erlent

Biden tekur olíufélögin á beinið fyrir svívirðilegan gróða

Heimir Már Pétursson skrifar
Joe Biden forseti Bandaríkjanna segir gróða olíufélaganna svívirðilegan og þau sýni enga samfélagslega ábyrgð. Geri þau það ekki megi þau búast við skattahækkunum og öðrum aðgerðum.
Joe Biden forseti Bandaríkjanna segir gróða olíufélaganna svívirðilegan og þau sýni enga samfélagslega ábyrgð. Geri þau það ekki megi þau búast við skattahækkunum og öðrum aðgerðum. AP/Alex Brandon

Bandaríkjaforseti segir olíufélögin græða svívirðilega á kostnað tugmilljóna manna sem þjáist vegna stríðsins í Úkraínu. Þau hafi brugðist samfélaginu á sama tíma og þau maki krókinn. Auki þau ekki framleiðsluna og lækki verð til neytenda geti þau búist við að skattahækkunum og öðrum aðgerðum.

Joe Biden Bandaríkjaforseti segir olíufélögin lítið hafa fjárfest í bandarísku samfélagi og ekki aukið framleiðslu sína til að koma til móts við áhrif stríðsins í Úkraínu á olíuútflutning frá Rússlandi. Á sama tíma hafi almenningur í landinu lagt sitt af mörkum.

„Olíuiðnaðurinn hefur ekki staðið við loforð sín um að fjárfesta í Bandaríkjunum og styðja bandarísku þjóðina. Eitt af öðru hafa stóru olíufélögin tilkynnt methagnað,“ segir Biden.

Stóru olíufélögin hafa hagnast gríðarlega á okrukreppunni. Hagnaður Exxon á þriðja ársfjórðungi er sá mesti í rúmlega 150 ár.vísir

Þannig hefði Shell greint frá 9,5 milljarða hagnaði á þriðja ársfjórðungi þessa árs sem væri næstum tvöfalt meiri hagnaður en í fyrra. Exxon hefði síðan bætt um betur með 18,7 milljörðum dollara hagnaði.

„Næstum þrisvar sinnum meira en Exxon hagnaðist á síðasta ári og það mesta í 152 ára sögu félagsins. Það hefur aldrei hagnast svona mikið,“ sagði forsetinn.

Á síðustu sex mánuðum hafi sex stærstu olíufélögin hagnast um rúma 100 milljarða dollara. Sjálfur sagðist Biden vera kapitalisti en þetta væri út í hött.

Bandaríkjaforseti segir stóru olíufyrirtækin skila sögulegum methagnaði í skjóli stríðsins í Úkraínu en standi ekki við loforð um uppbyggingu í Bandaríkjunum.AP/Evan Vucc

„Mér finnst þessi hagnaður svívirðilegur. Í stað þess að auka fjárfestingar sínar í Bandaríkjunum eða að gefa bandarískum neytendum tækifæri rennur þessi umframhagnaður til hluthafanna og til að kaupa aftur hlutabréf þeirra og laun yfirmannanna munu rjúka upp úr öllu valdi. Hættið þessu. Nú er nóg komið,“ sagði forsetinn.

Þessi mikli hagnaður væri ekki til kominn vegna góðra fjárfestinga og framsýni olíufélaganna heldur vegna þjáninga tuga milljóna manna vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Þeim bæri skylda til að huga að hagsmunum almennings viðþessar aðstæður.

„Ef þeir gera það ekki munu þeir borga hærri skatt af þessum mikla hagnaði og standa frammi fyrir öðrum takmörkunum. Það er kominn tími til að þessi fyrirtæki hætti að græða á stríðinu, axli ábyrgð sína í þessu landi, gefi bandarísku þjóðinni tækifæri en hagnist samt mjög vel,“ sagði Joe Biden.


Tengdar fréttir

Saka samtök olíuútflutningsfyrirtækja um að styðja Rússa

OPEC+ samtök olíuútflutningsríkja ákváðu í dag að draga verulega úr olíuframleiðslu til að bregðast við lækkandi olíuverði. Áhrifin á heimshagkerfið eru talin mikil og búist er við hækkunum á olíuverði eftir langþráðar lækkanir síðustu vikur. Ákvörðunin er högg fyrir Joe Biden Bandaríkjaforseta sem segir ákvörðunina til marks um skammsýni og sakar samtökin um að styðja Rússa með ákvörðuninni.

Skerða framleiðslu um tvær milljónir tunna

Fulltrúar stærstu olíuframleiðenda heims komust í dag að þeirri niðurstöðu að draga olíuframleiðslu á heimsvísu um tvær milljónir tunna á dag. Þetta var ákveðið á fundi OPEC+ ríkjanna í Vínarborg en niðurstaðan mun líklegast leiða til hærra olíuverðs eða í það minnsta stöðva verðlækkun.

OPEC líklegt til að draga verulega úr framleiðslu

Fulltrúar OPEC-ríkjanna svokölluðu og Rússlands, munu funda í Vínarborg í dag og ræða olíuframleiðslu. Fastlega er búist við því að tekin verði ákvörðun um umfangsmikla framleiðsluskerðingu með því markmiði að hækka olíuverð.

Staðan í Evrópu helsta ógnin við íslenskan efnahag

Íslensku efnahagslífi stafar helst ógn af mikilli óvissu í alþjóðamálum. Seðlabankastjóri telur að vaxtahækkanir og aðrar aðgerðir Seðlabankans séu farnar að skila árangri. Horft verði til þess við ákvörðun vaxta í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×