Tilkynnt var í gær að Sunak hefði orðið fyrir valinu sem nýr leiðtogi Íhaldsmanna og yrði þar með forsætisráðherra landsins.
Klukkan átta mun Liz Truss stýra sínum síðasta ríkisstjórnarfundi. Klukkan 9:15 mun hún svo lesa yfirlýsingu fyrir utan Downingstræti 10 áður en hún heldur til fundar við Karl III konung.
Skömmu síðar mun Rishi Sunak mæta til konungsins þar sem hann verður formlega beðinn um að mynda nýja ríkisstjórn. Hann mun svo halda í Downingstræti 10.
Klukkan 10:35 er reiknað með að Sunak muni lesa yfirlýsingu fyrir utan Downingstræti 10, þá í hlutverki nýs forsætisráðherra landsins.
Liz Truss tilkynnti um afsögn sína sem leiðtogi Íhaldsflokksins og þar með forsætisráðherra síðasta fimmtudag eftir einungis 45 daga í embætti. Hófst þá leiðtogakjör innan þingflokks Íhaldsmanna, en um miðjan dag í gær varð ljóst að Sunak yrði næsti leiðtogi eftir að Penny Mordaunt heltist úr lestinni. Hinn 42 ára Sunak var þá einn eftir í kjöri.