Skoðun

Konur! Hættum að vinna ó­keypis!

Tatjana Latinovic skrifar

Í dag höldum við kvennafrídag, 47 árum síðan kvennasamtök, kvenfélög og stéttarfélög tóku sig fyrst saman og konur lögðu niður vinnu til að leggja áherslu á mikilvægi vinnuframlags kvenna á Íslandi árið 1975.

Þrátt fyrir þrotlausa baráttu síðustu hálfa öldina höfum við ekki enn náð að uppfylla þann draum sem Rauðsokkur, femínistar og aktívistar á áttunda áratugnum báru í brjósti sér; að útrýma kynbundnum launamun og ná fram kjarajafnrétti á Íslandi.

Í dag er launamunur kynjanna 21,9%, þegar litið er á mun á heildartekjum kvenna og karla. Nú er langt liðið á þriðja áratug 21. aldarinnar og ótækt að okkur hafi ekki enn tekist að útrýma þessu þjóðarmeini.

Kvenréttindafélag Íslands var stofnað árið 1907 til að starfa að því að „íslenskar konur fái fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn, kosningarétt, kjörgengi svo og rétt til embætta og atvinnu með sömu skilyrðum og þeir“. Enn í dag eru markmið félagsins hin sömu, að tryggja það að konur hafi jafnan aðgang að ákvarðanatöku á öllum sviðum samfélagsins og að þær hafi sömu tækifæri og sömu laun á vinnumarkaðnum.

Þessi tvö markmið eru óaðskiljanleg. Við náum ekki kjarajafnrétti fyrr en konur taka fullan og jafnan þátt í að setja þau lög og reglur sem byggja upp samfélag okkar og vinnumarkað. Við minnumst þess í dag að 100 ár eru síðan Ingibjörg H. Bjarnason tók sæti á Alþingi Íslendinga, fyrst kvenna. Það var ekki fyrr en 87 árum eftir að Ingibjörg komst á þing, árið 2009, að breytinga fór að gæta. Þá urðu konur 43% þingfólks og síðan þá hafa ótal lög sem bæta stöðu kvenna og jafnrétti verið sett. Það kemur í ljós að þegar konur fá dagskrárvald á þingi eru mál tekin fyrir sem tryggja jafnrétti og bæta stöðu allra okkar sem hér búa.

Mikilvægt er að við tökum höndum saman og tryggjum jafnan aðgang að ákvarðanatöku á öllum sviðum samfélagsins. Enn er gefinn afsláttur af störfum kvenna og enn meiri afsláttur er gefinn af störfum jaðarsettra hópa svo sem innflytjenda og fatlaðra. Kvennastéttir hafa haldið uppi íslensku samfélagi í aldaraðir. Það eru kvennastéttir sem ala upp og kenna börnum, sem hjúkra sjúkum og hugsa um aldraða. Það eru konur sem halda uppi grunnstoðum samfélagsins og við verðum að meta störf þeirra að verðleikum. Við í Kvenréttindafélagi Íslands lítum nú til íslenskra stjórnvalda. Að stjórnvöld grípi til aðgerða sem tryggi að skakkt verðmætamat samfélagsins verði leiðrétt í eitt skipti fyrir öll.

Þegar lítið er á mun á heildartekjum kvenna og karla á Íslandi í dag hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir 6 klukkustundir og 15 mínútur. Konur vinna í dag ókeypis eftir kl. 15:15. Leiðréttum skakkt verðmætamat strax!

Höfundur er formaður Kvenréttindafélags Íslands.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×