Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,4 prósent í ágúst sem er mesta lækkun vísitölunnar frá því snemma árs 2019 og í frétt á vef SA er bent á að vísitalan sé byggð á þriggja mánaða meðaltali vegins fermetraverðs.
„Því eru áhrif síðustu vaxtahækkana og hertra lánaskilyrða Seðlabankans ekki komin fram nema að hluta til. Enn fremur sýna rannsóknir að vaxtabreytingar geti tekið langan tíma að hafa áhrif, t.d. á íbúðamarkað, en miklar vaxtahækkanir eru að óbreyttu til þess fallnar að lækka íbúðaverð.“
Taka samtökin fram að almennt skuli varast að lesa of mikið í einstaka mælingar en með þeim fyrirvara megi túlka mælinguna sem „hraðan viðsnúning“.
Eðli máls samkvæmt er mikil fylgni á milli húsnæðisverðs í verðbólgumælingum, þ.e. reiknaðrar húsaleigu, og vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu. Benda samtökin á að greindur hafi gert ráð fyrir 0,55-0,6 prósenta hækkun reiknaðrar húsaleigu í september en allar líkur séu á að það sé talsvert ofmat.
„Verðbólga er nú 9,7% og var 9,9% í júlí svo um væri að ræða mikla hjöðnun verðbólgu á skömmum tíma.“
Um þrjá fjórðu verðbólgunnar má rekja til reiknaðrar húsaleigu, matarkörfunnar, flugfargjalda og eldsneytis. Í frétt SA segir að heilt yfir virðast „verðbólguvindar teknir að snúast til hagstæðari áttar.“
Til viðbótar við lækkun íbúðaverðs hefur matvælaverð á heimsmarkaði lækkað undanfarnar vikur og leiða má líkur að því að hækkun flugfargjalda séu einskiptisáhrif vegna heimsfaraldursins. Þá hafa lækkanir á heimsmarkaðsverði eldsneytis skilað sér í lækkun bensín- og díselverði hér á landi á undanförnum vikum.
„Heilt yfir má því segja að verðbólguhorfurnar hafi að mörgu leyti batnað á síðustu vikum. Eftir stendur þó að verðbólga er enn langt yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans,“ segir í frétt SA.