
Í fjárlagaumræðunni á Alþingi í dag spurði framsóknarþingmaðurinn Ágúst Bjarni Garðarsson Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra út í mögulega sölu á því sem eftir væri af eign ríkisins í Íslandsbanka og hluta af nánast 100 prósenta eign ríkisins í Landsbankanum. Forsætisráðherra sagði heimild hafa verið til sölu á hlut í Landsbankanum allt frá árinu 2012 í stjórnartíð Samfylkingar og Vinstri grænna.
„Það hefur hins vegar verið afstaða Vinstri grænna um all nokkurt skeið að ríkið eigi að eiga Landsbankann, að við ættum ekki að selja hlut í Landsbankanum. Þess vegna hafa stjórnarsáttmálar, bæði sá síðasti og sá sem við störfum núna samkvæmt, kveðið á um það. Það er vegna þess að við teljum skynsamlegt að ríkið eigi einn banka,“ sagði Katrín.
Hins vegar hefðu Vinstri græn ekki sett sig upp á móti sölu Íslandsbanka. Allir væru sennilega sammála um að frekari sala á hlutum í honum færi ekki fram fyrr en skýrsla Ríkisendurskoðunar um fyrri sölu lægi fyrir.

Ágúst Bjarni sagði mikilvægt að hér á landi væri heilbrigt og fjölbreytt fjármálakerfi. Innan Framsóknarflokksins og víðar hefðu verið ræddar hugmyndir um samfélagsbanka. Bankarnir hefðu skilað gríðarlega miklum hagnaði á síðustu árum, ekki síst nú með aukinni verðbólgu með tilheyrandi auknum kostnaði fyrir heimili landsins.
„Er bankakerfið á Íslandi heilbrigt og hliðhollt heimilum og fyrirtækjum,“ spurði stjórnarþingmaðurinn.
Katrín sagði margt hafa breyst til batnaðar með auknum kröfum á bankana. Ekki væri sjáanlegt að greiðsluerfiðleikar heimilanna væru að aukast en nauðsynlegt væri að fylgjast vel með því.

Ekki eru allir þeirrar skoðunar að ríkið ætti að eiga Landsbankann áfram. Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar sagðist ekki skilja hvers vegna fólki þætti það góð hugmynd að ríkið væri í samkeppni við einkaaðila um rekstur banka og það á allt öðrum forsendum en einkaaðilarnir.
„Ég skil sjálfur ekki, þegar við erum að tala um stöðu ríkissjóðs eins og hún er núna, af hverju ríkið ætti að halda á 300–400 milljörðum í eign sinni á bönkum — það er hálfur Íslandsbanki og allur Landsbankinn — í stað þess að losa um þetta fé og greiða niður skuldir,“ sagði Sigmar Guðmundsson.