140 manna áhöfn var um borð í hrossamakríl frystitogaranum Tutungeni en togarinn hét áður Heinaste en hlaut nafnbreytingu eftir kaup Tunacor fisheries.
Peya Hitula, framkvæmdastjóri Tunacor, sem gerir út Tutungeni, staðfestir í samtali við The Namibian að óheppilegt slys hefði orðið í svartaþoku í skjóli nætur. Skipin hafi þó blessunarlega ekki verið á hraðri siglingu þegar óhappið varð.
„Áhafnir á hvoru skipi fyrir sig er heilar á húfi og ekkert manntjón varð. Það er hægt að gera við skemmda skipið,“ bætir Hitula við en á annarri hlið Tutungeni togarans er stærðarinnar gat eftir áreksturinn. Rannsókn á tildrögum óhappsins er hafin.
Yfirvöld í Namibíu kyrrsettu togarann Heinaste, nú Tutungeni, í kjölfar Samherjaskjalanna svokölluðu eða í nóvember 2019.
Í lok árs 2020 afléttu namibísk yfirvöld kyrrsetningu og leyfðu sölu hans gegn því að söluvirðið yrði áfram kyrrsett til tryggingar mögulegum upptökukröfum vegna sakamálsins sem rekið er í Namibíu.
Heinaste komst í fréttirnar hér á landi eftir umfjöllun RÚV, Kjarnans og Kveiks um Samherjaskjölin svokölluðu auk þess sem að Arngrímur Brynjólfsson, þáverandi skipstjóri skipsins var handtekinn, sakaður um ólöglegar veiðar á hrygningarsvæðum undan ströndum Namibíu. Hann játaði sök í febrúar en sagði eftir komuna til landsins að hann hefði tekið á sig sökina til þess að sleppa við það vera fastur í Namibíu um langa hríð.