
Hópur ungra sjálfstæðismanna lagði leið sína að rússneska sendiráðinu við Garðastræti í kvöld til að mótmæla innrás Rússa í Úkraínu. Á morgun verður hálft ár liðið frá innrásinni og ekki nóg með það heldur er þjóðhátíðardagur Úkraínu á morgun, 24. ágúst.
Samkvæmt heimildum fréttastofu var sérsveitarbíll staðsettur fyrir utan sendiráðið þegar ungu sjálfstæðismennirnir mættu og lögreglubílar voru fljótir að mæta á staðinn þar að auki. Ungmennin höfðu hafið verk við að mála úkraínska fánann á gangstéttina en voru stöðvuð við verkið og þeim vísað frá. Þá var þeim gert ljóst að þau hefðu gerst sek um eignarspjöll.
Ungir sjálfstæðismenn hafa boðað til málþings í Valhöll á morgun í tilefni þess að hálft ár verður liðið frá innrás Rússlands í Úkraínu.