Alls hafa ellefu þingmenn breska Íhaldsflokksins tilkynnt um framboð sitt fyrir leiðtogakjörið eftir að Johnson sagði af sér á fimmtudaginn í síðustu viku. Hann greindi frá því að hann myndi halda áfram sem forsætisráðherra þar til nýr leiðtogi væri kjörinn.
Í kjölfar þess greindu þingmenn, bæði frá Íhaldsflokknum og Verkamannaflokknum, frá því að leiðtogakjörið ætti að halda sem fyrst til að koma Johnson úr forsætisráðherrastólnum.
Í dag tilkynnti hin svokallaða 1922-nefnd sem sér um innri mál þingflokks Íhaldsflokksins að kjörið færi fram mánudaginn 5. september.
Penny Mordaunt, viðskiptamálaráðherra, er talin líklegust til að sigra kosningarnar, en á eftir henni koma ráðherrarnir Kemi Badenoch og Rishi Sunak. Sá sem var talinn líklegastur stuttu eftir afsögn Johnson, varnarmálaráðherrann Ben Wallace, gefur ekki kost á sér í kjörinu.