Skoðun

Hættum þessu!

Bjarnheiður Hallsdóttir skrifar

Enn á ný sigla lúnir hvalveiðibátar Hvals hf. á miðin og veiða hvali við Íslandsstrendur. Enn á ný klofnar þjóðin í afstöðu sinni til hvalveiða. Enn á ný fer heit umræða í gang, þar sem hvor fylking færir misgóð rök fyrir sínu máli. Enn á ný vaknar áhugi erlendra fjölmiðla á hvalveiðum Íslendinga, sem fjalla um þær í virtum og víðlesnum fjölmiðlum bæði vestan hafs og austan. Flestir á neikvæðum nótum.

Engin efnahagsleg rök fyrir hvalveiðum

Umræðan er á svipuðum stað og hún var fyrir aldarfjórðungi. Umhverfið hefur hins vegar gerbreyst. Ísland er nú ein örfárra þjóða í heiminum sem enn þverskallast við að stunda hvalveiðar og reynir eftir flóknum krókaleiðum að koma afurðunum á þá örfáu markaði, sem enn hafa áhuga á þeim. Viðhorf heimsbyggðarinnar til hvalveiða er nú enn neikvæðara en þá. Hún fylgist nú furðu lostin með þjóðinni sem kennir sig við framfarir, tækni, nýsköpun, hugverkaiðnað og ábyrga nýtingu auðlinda halda út á haf að skjóta hvali sem fáir hafa áhuga á að borða - en milljónir hafa áhuga á að horfa á. Efnahagsleg rök fyrir hvalveiðum Íslendinga eru nú nákvæmlega engin. Hvalveiðar skipta engu máli hvað varðar atvinnusköpun, gjaldeyristekjur eða almenna verðmætasköpun. Efnahagsleg rök fyrir því að hætta þeim, eru hins vegar yfirgnæfandi og augljós flestum. Orðið „orðsporsáhætta“ segir allt sem segja þarf um það.

Er það sjálfbært og samfélagslega ábyrgt?

Sjálfbærni og samfélagsleg ábyrgð eru nú rauður þráður í rekstri bæði samfélaga og fyrirtækja. Er það sjálfbært og samfélagslega ábyrgt að stunda hvalveiðar sem kalla á reiði og andúð á helstu markaðssvæðum íslenskra útflutningsfyrirtækja? Er það sjálfbært og samfélagslega ábyrgt að skaða með gjörðum sínum aðrar atvinnugreinar, það fólk sem þar starfar og samfélög sem reiða sig á þær? Er það sjálfbært og samfélagslega ábyrgt að stunda fyrirtækjarekstur sem veldur úlfúð, sundurlyndi og jafnvel óhugnaði í heimalandinu? Er það sjálfbært og samfélagslega ábyrgt að reka fyrirtæki í vafasamri starfsemi og borga jafnvel með rekstrinum?

Látum hvalina í friði!

Lokaorðin eru úr grein sem ég skrifaði í Morgunblaðið fyrir rúmum aldarfjórðungi, eða í janúar árið 1997:

„Horfum á hlutina í samhengi! Látum ekki sérhagsmuni eða þjóðernishroka ráða ferðinni. Viðurkennum að við lifum á tímum þar sem vald neytenda er mikið. Þeir hika ekki við að „versla annars staðar“ sé þeim misboðið. Látum hvalina í friði!“.

Höfundur er formaður Samtaka ferðaþjónustu.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×