Í fréttum Stöðvar 2 var rifjað upp að Bæjarhreppur við Hrútafjörð var áður syðsta sveitarfélagið á Ströndum. Eftir að hann sameinaðist Húnaþingi vestra árið 2012 spyrja menn sig hvort íbúarnir við vestanverðan Hrútafjörð teljist núna Strandamenn eða Húnvetningar.

Þau Sigrún Eggertsdóttir og Heiðar Þór Gunnarsson búa á jörðinni Bæ sem hreppurinn og íbúarnir voru kenndir við. En kalla þau sig enn Bæhreppinga?
„Ekki ég,“ svarar Sigrún sem sjálf er frá höfuðbólinu Bæ.
„Það er fólk á svæðinu sem notar það og talar þá um Bæjarhrepp hinn forna,“ segir Heiðar.
„Ég.. - við erum bara Húnvetningar, í Húnaþingi vestra,“ segir Sigrún.
-Nú! Eruð þið ekki Strandamenn frekar?
„Það fer svolítið eftir því hvern þú ert að tala við hérna í sveitinni,“ svarar Sigrún og hlær.

Já, Strandasýsla hefur verið talin til Vestfjarða og var áður hluti Vestfjarðakjördæmis. En tala þau aldrei um sig sem Vestfirðinga?
„Jú, sérstaklega þegar við rökræðum um hæðir á fjöllum á Vestfjarðakjálkanum. Þá finnst okkur mjög gaman að minna Ísfirðinga og Bolvíkinga á það að hæsta fjall á Vestfjörðum sé Tröllakirkja,“ segir Heiðar.
Og þá verður málið viðkvæmt því Vestfirðingar hafa almennt talið hinn tignarlega Kaldbak, sem rís upp úr vestfirsku ölpunum milli Arnafjarðar og Dýrafjarðar, vera hæsta fjall Vestfjarða. Kaldbakur er 998 metra hár. Tröllakirkja er hins vegar 1001 metri.

„Þetta er svolítið gaman að minna Vestfirðinga á þetta að þeir þurfa að fara alveg upp á efsta punkt á Holtavörðuheiði til að finna hæsta fjall Vestfjarða,“ segir bóndinn á Bæ og hlær.
Landfræðilega hefur samt oftast verið miðað við að Vestfirðir byrji þar sem styst er á milli Gilsfjarðar og Bitrufjarðar og þá er Kaldbakur klárlega hæsta fjall fjórðungsins. Og ef Bæjarhreppur hinn forni sé auk þess talinn Húnaþingsmegin þá getur Tröllakirkja vart talist á Vestfjörðum.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Þau Sigrún og Heiðar Þór eru í hópi viðmælenda þáttarins Um land allt á Stöð 2, um samfélagið í Hrútafirði vestanverðum. Þáttinn má nálgast á streymisveitunni Stöð 2+.
Fjallað var um Dýrafjörð og söguslóðir Gísla Súrssonar undir Kaldbaki í þessum þætti um Þingeyri árið 2014: