Fyrr í kvöld greindi Vísir frá því að alþjóða knattspyrnusambandið FIFA og knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefðu ákveðið að banna öll lið frá Rússlandi – félagslið sem og landslið – frá keppnum á vegum sambandanna tveggja vegna innrásar Rússa í Úkraínu.
Rússneska knattspyrnusambandið hefur ákveðið að áfrýja ákvörðun FIFA og UEFA til CAS, alþjóða íþróttadómstólsins.
Frá þessu greinir íþróttablaðamaðurinn Tariq Panja á Twitter-síðu sinni. Vitnar hann í rússneska knattspyrnusambandið:
„Við áskiljum okkur þann rétt að áfrýja ákvörðun FIFA og UEFA í samræmi við alþjóðleg íþróttalög.“
Þó svo að CAS ákveði að ekki sé um lögmæta ákvörðun að ræða hjá FIFA og UEFA er alls óvíst hvort eitthvað lands- eða félagslið vill mæta liðum frá Rússlandi. Það er allavega ljóst að ekkert íslenskt landslið mun spila við Rússland.