Denis Pushilin, sem stýrir aðskilnaðarsinnum í Donetsk, hefur sent frá sér ávarp þar sem hann sagðist hafa skrifað undir skipun um herkvaðningu og kallaði á alla menn sem vopni gætu valdið til að taka upp vopn.
Leonid Pasechnik, sem stýrir aðskilnaðarsinnum í Luhansk, gerði slíkt hið sama skömmu síðar.
Yfirvöld í Kænugarði hafa þvertekið fyrir að til standi að gera árás á yfirráðasvæði aðskilnaðarsinna.
Sjá einnig: Leiðtogar aðskilnaðarsinna skipa borgurum að flýja til Rússlands
Óttast er að Rússar, sem sagðir eru hafa komið um 190 þúsund hermönnum fyrir við landamæri Úkraínu, ætli sér að gera innrás í landið. Ráðamenn í Evrópu og Bandaríkjunum hafa varað við því að Rússar gætu skapað átyllu til innrás í austurhluta landsins.
Undanfarna daga hafa ráðamenn og fjölmiðlar í Rússlandi ítrekað talað um meint þjóðarmorð á rússneskumælandi fólki í austurhluta Úkraínu. Þessum yfirlýsingu hefur verið mætt af mikilli tortryggni.
Ljóst er að myndbandsávörp sem áðurnefndir leiðtogar aðskilnaðarsinna birtu í gær um nauðsyn þess að flytja almenna borgara til Rússlands vegna mikillar ógnar frá Úkraínuher höfðu verið tekin upp tveimur dögum áður.
„Í dag, 18. febrúar, erum við að skipuleggja brottflutning almennra borgara til Rússlands,“ sagði Pushilin í ávarpi sínu sem hann hafði í raun tekið upp tveimur dögum áður. Hann lýsti því sömuleiðis yfir að von væri á árás frá Úkraínuher.
Þegar myndbönd eru birt á Telegram, eins og þessi myndbönd voru, þá fylgja þeim svokölluð lýsigögn. Þau sýna meðal annars hvernær myndböndin voru tekin upp.
Eins og fram kemur í frétt AP fréttaveitunnar þykir þetta til marks um að aðskilnaðarsinnar og Rússar séu að fylgja eftir fyrirframmótuðu handriti.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, sagðist í gær sannfærður um að Valdimír Pútín, forseti Rússlands, hefði tekið þá ákvörðun að gera aðra innrás í Úkraínu.
Samkvæmt frétt Reuters segja forsvarsmenn hers Úkraínu að þeir hafi skráð minnst tólf skipti í dag þar sem aðskilnaðarsinnar hafi brotið gegn vopnahléi á svæðinu. Í gær hafi þau verið 66. Í morgun hafa svo borist fregnir af því að einn hermaður hafi fallið í sprengjuárás frá aðskilnaðarsinnum.
Hinu megin við víglínuna segja aðskilnaðarsinnar að Úkraínuher hafi skotið fjölda sprengja að þeim.