Gérald Darmanin, innanríkisráðherra Frakklands, segir að sjö manns hið minnsta hafi látist í eldsvoðanum. AFP segir frá því að tvö þeirra hafi verið börn.
Franceinfo segir frá því að saksóknarar hafi hafið rannsókn á því hvort sprengju hafi verið komið fyrir og að þar með um saknæmt athæfi hafi verið að ræða.
Auk þeirra sjö sem létust eru fjórir sagðir hafa særst og þar af einn alvarlega. Nokkrir þeirra voru í íbúðum fyrir ofan verslunina.
Tilkynning barst um sprenginguna klukkan hálf tvö að staðartíma í nótt, en Saint-Laurent-de-la-Salanque er að finna um fimmtíu kílómetra norður af landamærunum að Spáni.