Karlinn og konan slösuðust bæði og voru flutt á slysadeild með sár eftir skotin. Þau eru ekki í lífshættu samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í morgun.
Sá grunaði er samkvæmt heimildum fréttastofu á 23. aldursári og hefur varið stórum hluta fullorðinsáranna á bak við lás og slá. Hann hefur greint frá því opinberlega að hafa ungur farið í neyslu.
Hann var aðeins á táningsaldri þegar hann hlaut dóm fyrir tilraun til manndráps auk fleiri brota. Vegna þess brots var hann á skilorði þegar hann hlaut nokkurra ára fangelsisdóm árið 2018 fyrir brot á lögum um vopn, fíkniefni, umferðarlagabrot auk þess sem hann var sakfelldur fyrir ofbeldishótanir.
Lögreglan tók fram í tilkynningu sinni fyrir hádegi að hún teldi almenningi ekki hætta búin vegna málsins. Um sé að ræða einstakt mál.
Von er á frekari upplýsingum frá lögreglu í dag vegna málsins. Telja má líklegt að lögreglan fari fram á gæsluvarðhald yfir manninum sem gera þarf innan sólarhrings frá handtöku.