BBC segir frá því að rússnesk stjórnvöld hafi á sama tíma sagt vera litla ástæðu til bjartsýni þegar kemur að því að leysa hnútinn eftir að Bandaríkjastjórn hafnaði helstu kröfum Rússa.
Mikil spenna hefur verið á landamærum Rússlands og Úkraínu, en tugir þúsunda rússneskra hermanna hafa safnast saman við landamærin síðustu vikurnar og hafa margir óttast að innrás sé yfirvofandi. Rússnesk stjórnvöld hafna því þó hafa innrás í hyggju.
Emily Horne, talskona þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, segir að Biden hafi látið orðin falla um að Rússar kynnu að ráðast inn í Úkraínu í næsta mánuði í símtali við Volodymyr Zelensky Úkraínuforseta í gær.
Sagði hún Biden hafa varað við þessu um margra mánaða skeið og að forsetinn hafi ítrekað að Bandaríkin og bandamenn þeirra myndu bregðast við með ákveðnum og afgerandi hætti ef Rússar myndi ráðast inn í Úkraínu.