Skoðun

Okrað með aðstoð ríkisins

Berglind Rán Ólafsdóttir skrifar

Hugsum okkur ungt par sem er að byrja að búa. Það flytur inn fullt tilhlökkunar að takast á við þau verkefni sem fylgja sjálfstæðu lífi. Um það leyti berst SMS: „Velja þarf raforkusala innan 7 daga.“ Síðan fylgir slóð á opinberan vef þar sem raforkumarkaðurinn er skýrður í nokkru máli. Eftir að hafa verið send áfram á eftir nokkrum vefsíðum enda þau á síðu þar sem eru tenglar yfir á vefi rafmagnssalanna þar sem hægt er skrá sig í viðskipti.

Unga parið okkar villtist á þessari leið og af því að það átti eftir að festa gólflistana þá gleymdist rafmagnið. Það var vissulega áfram í innstungunum en þar sem þau höfðu ekki valið sér rafmagnssala sjálf þá flutti ríkið viðskipti þeirra til eins sölufyrirtækisins. Þau fengu ekkert að vita af því en nafnið á sölufyrirtækinu birtist á reikningi í heimabankanum við næstu mánaðamót.

Hvernig velur ríkið uppáhaldsfyrirtækið sitt?

Hvernig skyldi ríkið nú velja fyrirtækið sem það færir viðskiptavini nauðungarflutningum til? Jú, það er farið í listaverð rafmagnsalanna og sá sem er með lægsta meðalverðið yfir tiltekið tímabil fær sjálfkrafa viðskipti þeirra sem ekki velja sér rafmagnssala sjálf.

Unga parið, sem hefur ýmislegt við peningana að gera á nýja staðnum, er þá að fá lægsta verðið á markaðnum, myndi maður halda.

Ónei, þannig er því ekki varið. Þau borga hæsta verðið á markaðnum, langhæsta verðið. Fyrirtækið sem sendir opinberu starfsmönnunum lægsta listaverðið er nefnilega búið að búa til sérstakan okurflokk fyrir unga parið og önnur þau sem ekki velja sér rafmagnssala sjálf. Í staðinn fyrir að borga listaverðið sem opinberu starfsmennirnir eru með í höndunum borga söguhetjur okkar verð sem er næstum tvöfalt hærra, 75% hærra en verðið sem var gefið upp til að verða þessara nauðungarflutninga raforkukaupenda aðnjótandi. Í stað þess að borga listaverðið 6,44 kr eru þau að borga 11,16 kr. á kílóvattstund.

Ótækt

Þetta er ekki bara óviðunandi. Það er algerlega ótækt að ríkið taki að sér að flytja viðskipti mörg þúsund manns án vitneskju þess yfir í hæsta verðið á markaðnum. Og svona gengur þetta, mánuð eftir mánuð eftir mánuð, að ung pör á öllum aldri sem eru að byrja búskap, eða bara að flytja, eru þvinguð af ríkinu í viðskipti við fyrirtæki sem auglýsir lægsta verðið en rukkar svo hæsta verðið – langhæsta verðið hjá N1 rafmagn.

Við erum búin að benda Orkustofnun og orkumálaráðuneytinu á þetta, hvernig stórgallaðar reglur eru misnotaðar til að snuða fólk. Þetta er samt ennþá í gangi. Rafmagnskaup um þúsund heimila eru flutt í hverjum mánuði yfir í sérstakan, leynilegan okurverðflokk sem hvergi er finnanlegur opinberlega.

Er fólki treystandi til að velja?

Unga parið má þakka fyrir að ríkið hafi ekki tekið að sér að velja seljendur fyrir þau á öðrum nauðsynjum til heimilishaldsins. Hugsum okkur sérstakan okurbrunatryggingaflokk fyrir húsnæðið, sérstakan okurverðflokk fyrir fjarskiptin á heimilinu þar sem unga parið er rukkað um 75% hærra verð en það hélt í upphafi, bara af því að ríkið tók að sér að velja tryggingafélag og fjarskiptafélag fyrir það. Ef fólk getur valið sér tryggingafélag sjálft og fjarskiptafélag sjálft, þá er því treystandi að velja sér raforkusala.

Ríkisvarða okrið sem nú viðgengst er ekki í boði. Það verður að stöðva. Strax.

Höfundur er framkvæmdastýra Orku náttúrunnar.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×