Það heyrir auðvitað til algerrar undantekningar að í nytjavörumarkaðnum séu seldar vörur í dýrari kantinum. Því brá mörgum nokkuð í brún þegar þeir sáu verðið á stól, sem er nýkominn í verslun Góða hirðisins. Hann kostar hálfa milljón króna.
„Þetta er myndi ég segja dýrasta varan sem við höfum fengið og við fórum í mikla rannsóknarvinnu þegar hann barst okkur í gám. Og hann er að seljast erlendis á svona 750 til 850 þúsund,“ segir Ruth Einarsdóttir, rekstrarstjóri Góða hirðisins.

Fór á 51 þúsund fyrir tveimur árum
Stóllinn er nefnilega dönsk hönnunarvara frá 6. áratugnum. Og við lauslega leit á netinu koma upp erlendar sölusíður sem selja gerð af stólnum með leðuráklæði á 800 til 900 þúsund krónur.
Fréttastofa leitaði hins vegar í kjölfarið ráðgjafar hjá danska uppboðshúsinu Lauritz sem sagði okkur að stóll af þessari gerð hefði verið seldur á uppboði fyrir tveimur árum á 2.600 danskar krónur, sem gera 51 þúsund íslenskar krónur.
Það er dálítið ódýrara en í Góða hirðinum. Þó má ekki gleymast að ágóðinn af sölunni fer í gott málefni.
„Grunnmarkmiðið er að koma sem mestu í endurnot en hitt er að styðja við líknarfélög. Þannig þetta gefur okkur tækifæri til að bústa aðeins upp reksturinn hjá okkur og geta bara látið gott af okkur leiða til líknarfélaganna,“ segir Ruth.

Fólk hefur þegar sýnt stólnum áhuga og margir haft samband við Góða hirðinn vegna hans.
„Já, það er búið að vera mikill áhugi. Okkur hafa borist nokkrir tölvupóstar þar sem fólk er með fyrirspurnir og vill fá að vita meira.“
En ætli eigandinn hafi vitað hverju hann væri að henda?
„Mér finnst það mjög ólíklegt að hann hafi áttað sig á því hvað þetta væri. Þetta er náttúrulega bara glæsilegur stóll. En það eru mikil verðmæti í þessu,“ segir Ruth.