Sjúkratryggingar Íslands hafa nú samið við Reykjavíkurborg um útvíkkun á þjónustutíma öldrunarteymisins SELMU. Um er að ræða sérhæft, hreyfanlegt öldrunarteymi sem sett var á fót síðasta vetur en það samanstendur af læknum og hjúkrunarfræðingum.
Samhliða því hefur verið samið um styrkingu heimahjúkrunar í höfuðborginni til að geta sinnt aukinni eftirfylgd eftir vitjanir og ráðgjöf SELMU teymisins. Þá verður velferðartækni nýtt í auknum mæli til að styðja við búsetu fólks í heimahúsi.
María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, segir hugsunina sú að færa hluta af þjónustu sem annars hefði verið veitt á sjúkrahúsum heim til einstaklinga. Það muni meðal annars draga úr álagi sem er nú á Landspítala, sérstaklega á bráðamóttökunni.
„Við erum í rauninni að koma í veg fyrir að fólk þurfi að leita á bráðamóttökuna til þess að fá þjónustuna og í staðinn komi þjónustan meira heim til hins aldraða. Þannig þetta bæði styður við búsetu aldraðra á eigin heimili og léttir líka undir á bráðamótttökunni,“ segir María.
Með breytingunum verður þjónusta SELMU teymisins aukin til muna þar sem hjúkrunarfræðingar og læknar teymisins verða á vakt til 20 alla virka daga en hafa hingað til aðeins verið til 17. Þá verður teymið starfrækt um helgar og veitir þjónustu í samvinnu við heimahjúkrun Reykjavíkur frá klukkan 10 til 16.