Enginn þeirra 157 sem voru um borð komust lífs af þegar þotan hrapaði nærri Addis Ababa í mars 2019.
Samkvæmt samkomulaginu viðurkennir Boeing að bera ábyrgð á dauða þeirra sem létust í flugslysinu en á móti munu fjölskyldurnar ekki sækjast eftir svokölluðum refsikenndum skaðabótum (e. punitive damages) frá Boeing.
Fjölskyldurnar munu geta sóst eftir bótum frá Boeing og samkvæmt samkomulaginu munu þau mál fara í gegnum bandaríska dómskerfið, en ekki dómskerfin í heimaríkjum þeirra sem létust. Er þetta talið einfalda flækjustigið fyrir fjölskyldurnar, auk þess sem að þær geta þá sótt hærri bætur en ella að því er fram kemur í frétt BBC.
Mark Pegram, faðir Son Pegram sem lést í slysinu, segir að samkomulagið sé mikill áfangi því að með því viðurkenni Boeing að það beri ábyrgð á flugslysinu og geti ekki varpað henni á flugmenn vélarinnar eða Ethiopian Airlines.
Sérfræðingar telka að með samkomlaginu sé líklegt að yfirmenn hjá Boeing komist hjá því að svara fyrir flugslysið í dómsal. Með því sættist Boeing þó á að greiða fullar skaðabætur
737 Max-þoturnar voru kyrrsettar eftir flugslysið í Eþiópíu en nokkru áður hafði sams konar flugvél Lion Air í Indónesíu hrapað til jarðar. Flugvélarnar eru aftur komnar í loftið eftir mikla yfirferð flugmálayfirvalda á öryggi þeirra.