Netglæpamenn hafa komist yfir tugþúsunda símanúmera og tölvupósta hér á landi og senda fólki reglulega svikapósta í þeim tilgangi að svíkja út fé. Þar er til að mynda er til dæmis beðið um greiðslu fyrir sendingu með því í smella á tengil.
Póstflutningafyrirtækinn DHL og Pósturinn vara bæði við slíkum svikapóstum á heimasíðum sínum.
![](https://www.visir.is/i/AE62050515D1F7EE52E8AA29CCFAB1ED6223AFA045D03299F6100D64747DA03F_390x0.jpg)
„Undanfarna mánuði hafa verið í gangi herferði þar sem netglæpamenn nýta sér vörumerki póstdreifingarfyrirtækja eins og DHL og Póstsins.“ segir Guðmundur Arnar Sigmundsson sviðsstjóri Cert-is hjá Fjarskiptastofu..
DHL baðst undan viðtali vegna málsins þegar eftir því var óskað en í samtali við framkvæmdastjóra þar kom fram að um verulegt vandamál væri að ræða.
Guðmundur segir að falli fólk í gildruna geti það tapað háum fjárhæðum sem erfitt sé að endurheimta.
„Fólk getur lent í því að tapa allt frá nokkrum þúsundum króna upp í hundruð þúsunda króna,“ segir hann.
Hann segir að tölvuþrjótarnir sendi gríðarlegt magn svikapósta bæði með tölvupóstum og sms skilaboðum.
„Herferðirnar ganga út á að senda sem flesta pósta í nafni eins fyrirtækis og svo bíta alltaf einhverjir á agnið. Það má ætla að um tíu manns á dag tapi fjármunum til tölvuþrjóta,“ segir Guðmundur.
![](https://www.visir.is/i/44EC17957A3600B745F4A1C9E3CC7EE9E363E0B00AD8B9907E3802228891727C_390x0.jpg)
Hann segir að samanlagt geti upphæðir hlaupið á milljónum króna í hverjum mánuði sem almenningur borgar til slíkra glæpamanna.
„ Þetta er svolítið háð þeim herferðum sem eru í gangi og þær hafa verið óvenju stífar núna,“ segir hann.
Glæpamennirnir verði sífellt flinkari í að blekkja neytendur. Besta vörnin sé að kynna sér aðferðir þeirra og tilkynna slíka glæpi.
„Það hafa ótrúlegustu menn fallið fyrir ótrúlegustu tilraunum til árása og það er engin skömm að því. Við hvetjum fólk og fyrirtæki til að segja frá slíkum árásum þannig náum við best að koma í veg fyrir þetta,“ segir hann.