Viðskipti innlent

Boeing 777-fraktþotur bætast í flota Atlanta

Kristján Már Unnarsson skrifar
Tölvuteikning af Boeing 777 300 fraktþotu Air Atlanta.
Tölvuteikning af Boeing 777 300 fraktþotu Air Atlanta. Air Atlanta

Flugfélagið Air Atlanta í Kópavogi hefur gert langtímasamning um rekstur á tveimur Boeing 777-fraktþotum. Atlanta hafði áður tekið Boeing 777-farþegaþotur í notkun vorið 2023 og varð þá fyrst íslenskra flugfélaga til að hefja rekstur á þessari tegund af tveggja hreyfla breiðþotum.

„Við höfum verið með Boeing 777-farþegavélar í rekstri í nokkur ár, en þessi áfangi er mikilvægt skref fyrir Air Atlanta og opnar á ný tækifæri og aðra markaði,“ segir Baldvin Már Hermannsson, forstjóri Air Atlanta, í fréttatilkynningu frá félaginu.

„Boeing 747 hefur verið burðarás í starfsemi okkar síðan 1993 og við höfum flogið Boeing 747-fraktflugvélum frá árinu 2001. Við reiknum með að halda áfram rekstri þeirra um ókomin ár, á meðan Boeing 777-fraktflugvélin tekur smám saman við hlutverki þeirra og styður jafnframt áframhaldandi vöxt fyrirtækisins. Þetta mun jafnframt styrkja rekstur Air Atlanta á Íslandi og skapa ný tækifæri fyrir fjölmarga starfsmenn félagsins,“ segir Baldvin ennfremur.

Í tilkynningu Air Atlanta kemur fram að samningurinn sé í samstarfi við Fly Meta og Hungary Airlines. Samkvæmt honum muni Fly Meta fá fyrstu Boeing 777-300ERSF-vélina í nóvember næstkomandi. Hún verði rekin af Air Atlanta og leigð áfram til Hungary Airlines.

Flugvélin verður fyrsta breytta Boeing 777-300ER flugvélin, sem rekin er af evrópsku flugfélagi og breytt hefur verið úr farþegavél í fraktvél. Hún verður staðsett í Búdapest og mun sinna reglulegu flugi til meginlands Kína og Hong Kong. Önnur Boeing 777-300ERSF vél mun svo bætast við reksturinn á fyrri hluta árs 2026.

„Sú viðbót mun styrkja samstarfið enn frekar og festa langtímasamband allra þriggja aðila í sessi. Boeing 777-300ERSF vélin, sem einnig er þekkt sem „Big Twin“, er stærsta tveggja hreyfla fraktflutningavél heimsins og býður upp á framúrskarandi eldsneytisskilvirkni, burðargetu og flutningsrými. Vélin sameinar því þannig áreiðanleika, hagkvæmni og langdrægni sem skiptir sköpum í hröðu hagkerfi heimsins,“ segir í tilkynningu Air Atlanta.


Tengdar fréttir

Hér sést risaþotan taka á loft frá Keflavíkurflugvelli

Síðasta farþegaflug Air Atlanta á Boeing 747-júmbóþotunni var í dag og flaug vélin sérstakan kveðjuhring yfir Reykjavíkursvæðinu. Forstjóri Atlanta segir þessa flugvélartegund hafa byggt upp félagið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×