Fundur eftirlitsnefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings í gær var sögulegar þar sem forstjórar olíufyrirtækja voru í fyrsta skipti látnir sverja eið og svara spurningum um hvaða þátt þeir hefðu átt í að afneita loftslagsvísindum, blekka almenning og tefja fyrir aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Olíufyrirtækin hafa lengi fjármagnað hópa sem amast gegn loftslagsvísindum en einnig hefur komið fram að vísindamenn fyrirtækjanna sjálfra vissu af hættunni sem stafaði af bruna jarðefnaeldsneytis á sama tíma og forsvarsmenn þeirra reyndu að gera lítið úr henni og koma í veg fyrir aðgerðir.
Þrátt fyrir það sögðust forstjórar Exxon Mobil, Chevron, BP og Shell í Bandaríkjunum ekki taka þátt í að grafa undan loftslagsvísindum og aðgerðum. Darren Woods, forstjóri Exxon, gekk svo langt að fullyrða að yfirlýsingar fyrirtækisins um loftslagsmál hefðu alltaf verið sannleikanum samkvæmar, byggst á staðreyndum og verið í samræmi við viðtekin loftslagsvísindi.
„Þó að skoðanir okkar á loftslagsbreytingum hafi þróast með tímanum þá er það einfaldlega rangt að gefa í skyn að Chevron hafi tekið þátt í að dreifa upplýsingafalsi og blekkja almenning um þessu flóknu mál,“ sagði Michael Wirth, forstjóri Chevron.
Þingmenn demókrata, sem eru með meirihluta í nefndinni, gáfu lítið fyrir yfirlýsingar forstjóranna um sakleysi. Þeir hafa um mánaðaskeið reynt að fá afhent gögn um innri samskipti þeirra um loftslagsbreytingar.
„Þeir ljúga augljóslega eins og tóbaksforstjórarnir gerðu,“ sagði Carolyn Maloney, formaður nefndarinnar og demókrati frá New York.
Reyndu demókratar oft að líkja yfirheyrslunum í gær við fræga nefndarfundi þar sem forstjórar tóbaksframleiðenda komu fyrir bandaríska þingnefnd á 10. áratugnum. Þar héldu þeir því meðal annars fram að þeir tryðu því ekki að nikótín væri ávanabindandi.
Vildu ekki lofa að hætta að standa gegn loftslagsaðgerðum
Olíuforstjórarnir lögðu áherslu á hversu jarðefnaeldsneyti væri mikilvægt heimsbyggðinni og að það væri alls ekki á útleið, jafnvel þó að þeir viðurkenndu að draga þyrfti úr losun.
Af sumum yfirlýsingum þeirra að dæma reyndu þeir þó að forðast að gangast að fullu við því að vara þeirra hefði skaðleg áhrif á loftslag jarðarinnar.
Þannig sagði Woods, forstjóri Exxon, að bruni á olíu „gæti“ átt þátt í hnattrænni hlýnun þrátt fyrir að enginn efi sé uppi um losun manna á gróðurhúsalofttegundum sé eina ástæðan fyrir þeirri hnattrænu hlýnun sem nú á sér stað á jörðinni.
Enginn olíuforstjóranna vildi heldur lofa nefndarmönnum að þeir myndu draga fyrirtæki sín út úr Bandarísku jarðolíustofnuninni (e. American Petroleum Institute), stærsta þrýstihópi olíufyrirtækjanna. Hún hefur meðal annars lagst gegn því að rafbílar verði niðurgreiddir og gjald lagt á losun metans. Franska olíufyrirtækið Total dró sig út úr hópnum í janúar vegna óánægju með þá stefnu.
Þeir vildu heldur ekki skuldbinda sig til þess að leggja ekki lengur fé í að grafa undan loftslagsvísindum eða aðgerðum.
Fulltrúar repúblikana í nefndinni, sem viðurkenna ekki loftslagsbreytingar sem raunverulegt vandamál, vörðu sínum spurningum fyrst og fremst í að verja olíuforstjórana, þakka þeim fyrir störf sín og gagnrýna demókrata fyrir að halda vitnaleiðslurnar sem þeir kölluðu pólitískt leikrit.
Maloney, formaður nefndarinnar, tilkynnti eftir sex klukkustunda langan fund að hún ætlaði sér að stefna fyrirtækjunum til að afhenda gögnin sem nefndin sækist eftir um hvernig fyrirtækin hafa þyrlað upp ryki um loftslagsbreytingar í gegnum tíðina.