„Borið hefur á einstakling sem heldur til í Laugardalnum, nánari staðsetning ekki staðfest, og hafi sá verið við áfengisdrykkju á íþróttasvæði félagsins, áreitt börn og unglinga og hafi í einhverjum tilfellum berað sig fyrir framan hóp barna á leið að og frá íþróttasvæði félagsins. Af lýsingum að dæma er um sama einstakling að ræða og viðhafði samskonar hátterni fyrir um ári síðan eða í október 2020,“ segir í pósti frá Þóri Hákonarsyni, íþróttastjóra Þróttar, til foreldra og forráðamanna í dag.
Hann segir að Þróttur hafi sett sig í samband við félagsmálayfirvöld Reykjavíkurborgar og lögreglu. Í dagbókarfærslu lögreglu í morgun kom fram að maðurinn hefði verið handtekinn í gær.
„Munum við að sjálfsögðu fylgja því fast eftir að öryggi barnanna verði tryggt á svæðinu og að þau þurfi ekki að verða fyrir því áreiti sem augljóslega hefur fylgt umræddum einstaklingi.“
Vegna þess verður öllum inngöngum inn á gervigrasið í Laugardal, hvar iðkendur Þróttar æfa fótbolta, lokað að undanskildum aðalinngangi sem er frá bílastæðinu fyrir framan félagsheimilið.

„Bið ég ykkur vinsamlegast um að koma því á framfæri við iðkendur að nýta þann inngang og ekki reyna að komast inn á völlinn annars staðar.“
Þórir segir í samtali við Vísi að maðurinn hafi aðallega sést við aðra inngang en aðalinnganginn.
„Það er mikilvægt að við verðum öll á varðbergi og ef vart verður við manninn að það sé tilkynnt annað hvort beint til lögreglu sé ástæða til eða til undirritaðs. Jafnframt að það sé ítrekað fyrir börnunum að koma sér í burtu frá manninum verði þau hans vör og láta vita hvar hann er á ferli.“