„Ég fór inn í kvöldið með engar væntingar,“ segir Lenya. Hún endaði þó inni á þingi, yngst allra þingmanna í sögunni til að vera kosin í alþingiskosningum, aðeins 20 ára gömul.
„Ég vaknaði í morgun og síminn var bara að titra og springa.“
Hún segist ekki vera búin að meðtaka niðurstöðuna og restin af deginum fari í það. Lenya fer nú í fullt starf sem þingmaður en hún er á þriðja ári í laganámi.
„Ég held ég þurfi að biðja um lengri skilafrest í skólanum.“
Tókust í hendur
Brynjar Níelsson endaði úti eftir æsispennandi nótt. Brynjar vakti ekki eftir úrslitunum frekar en Lenya heldur vaknaði í morgun og sá að þingmennskan væri öll. Hann kennir Lenyu ekki um niðurstöðuna.
„Nei, ég hef bara aldrei séð hana áður en ég óska henni bara til hamingju með þetta,“ sagði Brynjar en þau tókust í hendur áður en viðtalinu við Snorra Másson lauk.
„Ég bý í landi tækifæranna, nú finn ég bara eitthvað annað,“ segir Brynjar. Það verði ekki endilega lögmennskan enda sé hann orðinn úreldur þar.
„Framtíð þjóðar stendur ekki og fellur með mér.“
Sötraði kaffi á skjálftavaktinni
Sigmar Guðmundsson endaði inni eftir að hafa verið á vökunni í nótt, ýmist inni eða úti. Fyrstu tölur litu illa út fyrir Viðreisn en skánaði með nóttinni og fram á morgun. Flokkurinn bætti við sig manni.
„Þetta var eiginlega súrrealískt,“ sagði Sigmar. Hann hefði verið á skjálftavaktinni í sófanum heima, ekkert sofið og aðeins sötrað kaffi.
Bæði Sigmar og Lenya sögðust eiga von á að ríkisstjórnin héldi samstarfi sínu áfram. Þá yrðu þau öflug í stjórnarandstöðu.